Viðskipti innlent

Spá 75 punkta stýri­vaxta­hækkun Seðla­bankans

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka.
Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Vísir/Vilhelm

Greining Íslandsbanka spáir því að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti um 75 punkta í næstu viku þannig að þeir fari úr 6,5 prósentum í 7,25 prósent.

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun greina frá ákvörðun sinni miðvikudaginn 22. mars. Ákveði nefndin að hækka stýrivexti er um að ræða tólftu hækkunina í röð. Síðasta vaxtaákvörðun, sem tilkynnt var 8. febrúar, fól í sér 50 punkta hækkun, úr 6 prósentum í 6,5.

Á vef Íslandsbanka segir að þó að spáð sé 0,75 prósenta hækkun stýrivaxta þá séu einnig nokkrar líkur á vaxtahækkun um hálfa eða eina prósentu.

„Þrálát verðbólga og verri verðbólguhorfur en Seðlabankinn vænti í febrúarbyrjun verða efst á blaði peningastefnunefndarinnar við ákvörðunina að þessu sinni en styrking krónu og stöðugra íbúðaverð gætu heldur dregið úr vaxtahækkunarviljanum. Stýrivextir munu líklega ná hámarki í að minnsta kosti 7,5% um mitt ár og líkur hafa minnkað á að lækkun vaxta komi til á yfirstandandi ári,“ segir á vef bankans.

Gangi spá bankans eftir myndu stýrivextir ekki hafa verið hærri síðan á miðju ári 2010.

Frekari hækkanir á öðrum ársfjórðungi

Greining Íslandsbanka segir að vaxtaferlar á markaði hafi undanfarið endurspeglað væntingar um talsverða frekari hækkun stýrivaxta.

„Líklega er frekari hækkun vaxta framundan á öðrum fjórðungi ársins en aðeins ein vaxtaákvörðun er á dagatali Seðlabankans á því tímabili. Trúlega verða stýrivextir í það minnsta 7,5% um mitt ár og gæti því skrefið í maí orðið stærra ef vaxtahækkunin í mars verður í hóflegri kanti og öfugt. Það ræðst svo af framhaldinu í verðbólgu- og efnahagsþróun hvort vextir verða hækkaðir frekar á seinni hluta ársins. 

Miðað við nýjustu spár okkar um hagþróun og verðbólgu gæti Seðlabankinn látið staðar numið við 7,5% vexti og haldið stýrivöxtum á því stigi út þetta ár. Í kjölfarið kæmi svo hægfara lækkun vaxta eftir því sem verðbólga hjaðnar og dregur úr spennu í efnahagslífinu. Óvissan í þeirri spá er þó fremur upp á við en hitt ef ekki verður óvænt breyting til batnaðar í verðbólguþróun, eða þá til hins verra í efnahagslífinu,“ segir á vef Íslandsbanka.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×