Skoðun

„Hvað svo?“ – Nám í þjóð­fræði

Þórunn Valdís Þórsdóttir skrifar

Nú þegar Háskóladagurinn er nýbúinn eru líklega mörg að velta fyrir sér að fara í nám og skoða hvað er í boði. Þegar ég lauk framhaldsskóla fékk ég oft spurninguna hvað ég ætlaði svo að gera næst. Oft fannst mér ætlast til þess að næsta skref væri háskólanám, þar sem ég þyrfti að velja námið út frá því hvað ég ætlaði svo að verða. Eftir að hafa tekið mér smá hvíld frá námi og safnað smá pening ákvað ég að ég væri tilbúin til að fara aftur í nám og læra eitthvað. Ég vissi bara ekki hvað ég vildi læra.

Ég ákvað að byrja á byrjuninni og skoða hvaða nám væri í boði í háskólum landsins og sjá hvort ég fyndi þannig hvað mig langaði að gera. Það voru margar námsleiðir sem ég hafði áhuga á, en var samt hálf hikandi um hvort ég vildi skuldbinda mig og hvort ég myndi vilja vinna á því sviði eftir námið. Þegar ég var komin niður nánast allan listan á námsframboði í Háskóla Íslands rak ég svo augun í orðið þjóðfræði. Ég hafði ekki hugmynd um hvað það væri, en ákvað samt að lesa um námið. Þarna var búið að blanda saman öllu sem ég hafði áhuga á í öðrum námsgreinum. Þjóðfræðin virtist vera mjög fjölbreytt nám, þar sem hægt væri að skoða nánast alla þætti samfélagsins. Þar væri horft á hversdagsmenningu og daglegt líf fólks, bæði í fortíðinni og samtímanum. Hægt væri að skoða þjóðsögur og ævintýri, atvinnu- og lifnaðarhætti, hátíðir, leiki, tísku og trúarbrögð svo dæmi séu nefnd. Ég ákvað því að láta vaða og skráði mig í þjóðfræði haustið eftir.

Það að vera komin með plan fyrir næstu þrjú árin reyndist þó ekki nóg til að losna undan spurningunni „hvað svo?“ Ég var reglulega spurð að því hvað þjóðfræðingar gerðu eiginlega og oftar eftir því sem útskriftin færðist nær. Til að byrja með var svarið yfirleitt „ég veit það ekki“, en með tímanum hefur það breyst. Þó ég sé enn ekki viss um hvað ég ætla að gera að námi loknu, hef ég lært að til viðbótar við hversu skemmtilegt þjóðfræðinámið er, er það einnig mjög hagnýtt. Nám sem skoðar samfélög og hjálpar okkur að skilja fólk og hópa beinir manni ekki inn á einhvern ákveðinn starfsvettvang, en er gagnlegt mjög víða og tækifærin fjölbreytt. Grunnnám í þjóðfræði opnar einnig dyrnar á fjölda möguleika til framhaldsnáms, bæði í þjóðfræði og í öðrum greinum.

Ég er allavega mjög ánægð með ákvörðunina sem ég tók fyrir þremur árum síðan og hlakka til framhaldsins.

Höfundur er nemandi í þjóðfræði við Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×