Handbolti

Lærisveinar Halldórs án sigurs í sjö leikjum í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Halldór Jóhann Sigfússon og Søren Hansen hafa skipt um hlutverk og nú er Halldór aðalþjálfari TTH til loka tímabilsins.
Halldór Jóhann Sigfússon og Søren Hansen hafa skipt um hlutverk og nú er Halldór aðalþjálfari TTH til loka tímabilsins. tthholstebro.dk

Danska úrvalsdeildarfélagið TTH Holstebro mátti þola þriggja marka tap er liðið heimsótti SønderjyskE í kvöld, 33-30. Þetta var fyrsti leikur félagsins eftir að Halldór Jóhann Sigfússon tók við sem aðalþjálfari liðsins, en hann hafði hingað til gengt stöðu aðstoðarþjálfara.

Heimamenn í SønderjyskE náðu forystunni snemma í leiknum og liðið hafði yfirhöndina það sem eftir lifði leiks. Mest náðu heimamenn fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, en að honum loknum var staðan 16-11.

Gestirnir gerðu nokkrum sinnum atlögu að forskoti SønderjyskE í síðari hálfleik, en náðu þó aldrei að minnka muninn nema niður í tvö mörk. Fór það því svo að lokum að heimamenn í SønderjyskE unnu nokkuð öruggan þriggja marka sigur, 33-30.

Holstebro situr nú í áttunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig eftir 22 leiki. Liðið er án sigurs í seinustu sjö deildarleikjum og þar af hefur liðið tapað sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×