Golf

Fór tvisvar úr að ofan til að slá golfhögg á PGA-móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Akshay Bhatia hikaði ekki við að afklæðast til að passa upp á fötin fengju ekki á sig leðjuslettur.
Akshay Bhatia hikaði ekki við að afklæðast til að passa upp á fötin fengju ekki á sig leðjuslettur. Getty/Sam Greenwood

Bandaríski kylfingurinn Akshay Bhatia vakti mikla athygli á PGA golfmóti á Palm Beach á Flórída skaga um helgina.

Bhatia klæddi sig nefnilega úr að ofan í tvígang á þriðja hringnum á laugardaginn eftir að hafa slegið út fyrir braut.

Fyrra skiptið var á sjöttu holunni þegar hann missti högg út vinstra megin. Hann fór úr að ofan og tókst að slá inn á braut og svo í framhaldinu bjarga parinu. Eftir höggið var hann með leðjuslettur á sér og því kannski skynsamlegt að fara úr að ofan.

Bhatia hafði spilað annan hringinn vel en þarna fór allt að ganga á afturfótunum hjá honum.

Hann var búinn að fá skolla, skramba og skolla á þremur af fjórum holum áður en hann kom á fimmtándu holuna. Þetta var par þrjú hola og Bhatia sló of langt, yfir holuna og út í mýrlendi fyrir aftan holuna.

Hann reyndi að slá boltann úr mýrinni þar sem fæturnar hans voru á kafi í leðju. Það tókst hins vegar ekki eins vel og í fyrra skiptið og hann endaði á að fá skramba á holunni. Á endanum lék hann hringinn á fjórum höggum yfir pari.

Bhatia þótti samt vænt um að fá klapp þegar hann mætti í klúbbhúsið eftir hringinn.

„Ég fékk klapp og leið vel með það. Mér finnst líkaminn minn líta vel út og vonandi leit hann út fyrir að vera aðeins stærri í sjónvarpinu,“ sagði Akshay Bhatia léttur í viðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×