Viðskipti innlent

Segir methagnað uppskeru af uppbyggingu virkjana

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kynnir ársreikninginn á fundi með fréttamönnum og fulltrúum greiningadeilda fjármálastofnana í morgun.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kynnir ársreikninginn á fundi með fréttamönnum og fulltrúum greiningadeilda fjármálastofnana í morgun. Egill Aðalsteinsson

Landsvirkjun skilaði fjörutíuogfimm milljarða króna hagnaði á síðastliðnu ári og leggur stjórn fyrirtækisins til að tuttugu milljarða króna arður verði greiddur í ríkissjóð, fimm milljörðum meira en fjárlög gera ráð fyrir. Forstjórinn segir þetta uppskeru virkjanauppbyggingar síðustu áratuga en endursamningar við stóriðju séu þó stærsti áhrifaþátturinn í góðri afkomu.

Afkoma Landsvirkjunar hefur aldrei verið betri í 58 ára sögu þess fyrirtækisins, samkvæmt ársreikningi sem birtur var í gær. Forstjórinn, Hörður Arnarson, kynnti fréttamönnum og fulltrúum fulltrúum greiningadeilda fjármálastofnana afkomuna í morgun, en rætt var við Hörð í hádegisfréttum Bylgjunnar:

„Við erum á margan hátt að uppskera, bæði frá þessum virkjunum sem hafa verið byggðar á síðustu 58 árum, og njótum mjög góðs af í dag, en einnig þessari vegferð sem við hófum fyrir tíu árum síðan að endursemja við okkar viðskiptavini. Það er að skila sér í langbesta rekstrarári Landsvirkjunar,“ segir Hörður.

Í kynningu Landsvirkjunar kemur fram að stóriðjan borgar núna raforkuverð sem er sambærilegt við það sem er í helstu viðmiðunarlöndum, eins og Kanada og Norður-Noregi. Meðalverð til stórnotenda án flutnings hafi aldrei verið hærra, eða tæplega 43 dollarar á megavattstund.

Meirihluti tekna Landsvirkjunar frá stóriðjunni er tengdur álverði og raforkumarkaði Norðurlanda og þar hefur verð verið í hæstu hæðum.

„Ytri aðstæður á síðasta ári voru hagstæðar. Bæði gekk okkar viðskiptavinum vel og voru að fullnýta samningana. Virkjanirnar gengu líka vel og verð á hrávörumörkuðum há.

En svona meginástæðan fyrir þessum mikla viðsnúningi eru endursamningar. Við höfum samið við flestalla okkar viðskiptavini upp á nýtt. Þeir samningar er núna orðnir virkir. Og það er kannski stærsti áhrifaþátturinn í þessari góðu afkomu sem við sjáum, bæði 2021 og 2022,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.


Tengdar fréttir

Leggja til tuttugu milljarða arðgreiðslu

Afkoma ársins var sú besta í sögu Landsvirkjunar. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem við lítum helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 44,9 milljarðar króna og hækkaði um ríflega 72% á milli ára í bandaríkjadal talið. Þetta kemur fram í ársreikningi Landsvirkjunar.

Landsvirkjun áformar meiri orkuöflun á fjórum stöðum

Ný orkuöflun Landsvirkjunar stefnir í að verða mjög umfangsmikil á næstu árum, að sögn forstjórans. Auk Hvammsvirkjunar áformar fyrirtækið stækkun virkjana á Þeistareykjum og við Sigöldu sem og vindorkulund við Búrfell.

Miklar hækkanir á álverði skilar Norðuráli hagnaði upp á tíu milljarða

Miklar verðhækkanir á álverði á heimsmarkaði skiluðu sér í því að tekjur Norðuráls á Grundartanga jukust um 39 prósent á árinu 2021 og námu samtals 791 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 103 milljarða króna. Mikil umskipti voru í afkomu álversins sem hagnaðist um 79,4 milljónir dala eftir skatta borið saman við tap upp á tæplega 9 milljónir dala á árinu 2020.

Heimsmarkaðsverð á áli orðið ævintýralega hátt

Heimsmarkaðsverð á áli fór í gær í 3.850 dollara tonnið. Þetta er langhæsta álverð sögunnar. Álmarkaðir hafa heldur róast framan af degi og verðið sigið niður, fór niður í 3.740 dollara í morgun og var komið niður undir 3.500 dollara um hádegisbil.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×