Handbolti

Fyrirliði tyrkneska landsliðsins og fimm ára sonur hans létust í jarðskjálftanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cemal Kütahya ásamt syni sínum.
Cemal Kütahya ásamt syni sínum. ihf

Þær sorglegu fréttir hafa borist frá Tyrklandi að fyrirliði handboltalandsliðsins og fimm ára sonur hans hafi látist í jarðskjálftanum mikla þar í landi.

Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF. Þar kemur fram að Cemal Kütahya, fyrirliði tyrkneska landsliðsins, hafi látist í jarðskjálftanum ásamt fimm ára syni sínum. Kütahya var 32 ára þegar hann lést.

Kütahya og sonur hans grófust undir rústum í húsi hans í Hatay Antakya. Eiginkona hans, sem er gengin fjóra mánuði með annað barn þeirra, er ófundin sem og tengdamóðir hans.

Auk þess að vera fyrirliði tyrkneska handboltalandsliðsins spilaði Kütahya með strandhandboltalandsliðinu og var fyrirliði þess. Samtals spilaði hann yfir 150 leiki með landsliðum Tyrklands í handbolta og strandhandbolta.

Á ferli sínum lék Kütahya í heimalandinu, Katar og Rúmeníu. Síðast lék hann með Özel Vefakent Hatay Metropolitan Municipality Sports Club.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×