Innherji

Mo­o­dy's í­hug­ar að hækk­a láns­hæf­is­mat Kvik­u í ljós­i sam­run­a­við­ræðn­a

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku, og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Marinó Örn Tryggvason, bankastjóri Kviku, og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody's tilkynnti í dag að formlega hefði verið tekið til skoðunar að hækka lánshæfismat Kviku í kjölfar þess að ákveðið hefur verið að hefja viðræður um samruna Kviku og Íslandsbanka.

Á meðan á skoðunartíma stendur gæti lánshæfismat Kviku verið hækkað, verði af samruna við Íslandsbanka, þá er einnig talið ólíklegt að lánshæfismat Kviku verði lækkað á tímabilinu. Verði ekki af samruna félaganna mun Moody‘s staðfesta núverandi lánshæfismat Kviku, með fyrirvara um að félagið haldi áfram að sýna fram á sterka rekstrarniðurstöðu. Þetta kemur fram í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar.

Til skoðunar er að hækka Baa1 langtíma og Prime-2 skammtíma lánshæfismat Kviku á innlánum og Baa2 langtíma og Prime-2 skammtíma lánshæfismat Kviku sem útgefanda óveðtryggðra skuldabréfa. Moody‘s horfir einnig til hækkunar á ýmsum undirþáttum lánshæfismatsins. Horfur lánshæfiseinkunna Kviku vegna innlána og sem útgefanda voru áður metnar stöðugar.

Eins og Innherji greindi frá í byrjun mánaðarins hefur Moody‘s sagt að verði af samruna Kviku og Íslandsbanka myndi það hafa jákvæð áhrif á lánshæfi fyrirtækjanna. Kvika myndi verða hluti af mun stærri bankaeiningu, sem ætti að draga meðal annars úr rekstraráhættu, og fyrir Íslandsbanka yrði það til þess fallið að breikka enn frekar tekjustrauma bankans.

Í stuttri greiningu sem Moody´s sendi frá sér fyrr í mánuðinum vegna væntanlegra viðræðna um samruna Kvika við Íslandsbanka - sem nú eru formlega hafnar - er nefnt að Kvika sé fjármálasamsteypa sem samanstandi af fimm rekstrarsviðum. Þar sé um að ræða viðskiptabankastarfsemi, fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskipti, tryggingastarfsemi, eignastýringu sem einblíni á innlenda viðskiptavini og að lokum lánastarfsemi í Bretlandi.

Vegna fjárfestingabankastarfseminnar hjá Kviku og þess aukna flækjustigs sem hefur orðið eftir fjölda samruna og yfirtakna á liðnum árum – síðast sameiningin við TM í upphafi ársins 2021 – þá sé meiri áhætta í rekstri Kviku borið saman við aðra innlenda banka. Íslandsbanki er umtalsvert stærri en Kvika með ríflega fimmfalt meiri eignir á efnahagsreikningnum. Í lok þriðja fjórðungs í fyrra voru eignir Íslandsbanka tæplega 1.550 milljarðar króna á meðan eignir Kviku eru tæplega 300 milljarðar.

Að sögn greinenda Moody´s ætti samruni félaganna að breikka tekjustrauma Íslandsbanka og eins hafa jákvæð áhrif á afkomu hans. Um þessar mundir sé Kvika að njóta góðs af því að vera með tekjur af fjölbreyttri starfsemi sem inniheldur meðal annars vaxtatekjur, tryggingatekjur, fjármunatekjur og jafnframt þóknana- og ráðgjafatekjur.

Sögulega séð hefur bankastarfsemi Kviku skilað arðsemi á efnislegar eignir félagsins sem nemur um 2 prósentum, borið saman við 1,5 prósent í samanburði við aðra banka á árunum 2019 til 2021, en hjá Íslandsbanka hefur arðsemi á sama mælikvarða verið um 1 prósent. Sé tryggingastarfsemin vegna TM einnig tekin með í reikninginn þá hefur arðsemin hjá Kviku verið yfir 3 prósent.

Samruninn er sagður gera Íslandsbanka minna háðan vaxtatekjum, sem voru um 75 prósent af heildartekjum bankans á fyrstu níu mánuðum síðasta árs, og auka tekjur félagsins af tryggingarekstri, þóknunum og fjármunatekjum.

Þá bendir Moody´s á að takmörkuð skörun sé í lánabókum bankanna. Kvika býður ekki upp á íbúðalán, útibúaþjónustu ná aðra hefðbundna viðskiptabankastarfsemi. Þess í stað leggur bankinn áherslu á sérhæfða fjárfestingabankastarfsemi, útlán til efnameiri einstaklinga og fyrirtækja ásamt fasteignaveðlánum og brúarfjármögnun í Bretlandi í gegnum eignarhald sitt á Ortus. Þá sé Kvika eigandi að Auði, sem býður upp á innlánsreikninga þar sem öll afgreiðsla fer fram á netinu, og neytendalánafyrirtækið Aur app sem er með um 80 til 90 prósenta markaðshlutdeild hjá aldurshópnum 20 ára og yngri.

Íslenska ríkið er sem kunnugt er langsamlega stærsti hluthafi Íslandsbanka, með um 42,5 prósenta hlut, og færi að óbreyttu með um tæplega þriðjungshlut í sameiginlegu félagi ef af samruna þeirra verður. Aðrir helstu eigendur yrðu íslenskir lífeyrissjóðir sem myndu eiga samanlagt hátt í helmingshlut í sameinuðum banka.

Sveinn Héðinsson, hlutabréfagreinandi hjá IFS ráðgjafafyrirtækinu, hefur sagt við Innherja að samruni Íslandsbanka og Kviku yrði ekki ólíkur því þegar Kaupþing og Búnaðarbankinn runnu saman. Sú sameining hafi heppnast vel.

Sveinn nefndi að samruni Íslandsbanka og Kviku hafi nokkuð augljós samlegðartækifæri. Fyrirtækin séu í grunninn með eins rekstur og því „einfalt fyrir þau að renna saman og skala upp“ reksturinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×