Handbolti

„Ekki boðlegt í Olís-deildinni“

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Einar Jónsson.
Einar Jónsson. Vísir/Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var býsna svekktur eftir tap gegn FH í Olís-deildinni í handbolta í dag. Leikurinn endaði með tveggja marka sigri Hafnfirðinga.

„Þetta var ekki gott, við vorum ekki að spila vel. Úrslitin voru eftir því, það er bara þannig,“ sagði Einar eftir leikinn.

Hann hélt áfram og sagði: „Við töpum með tveimur en þetta ræðst á smáatriðunum. Þeir hirða öll fráköst, eru með helmingi betri markvörslu en við og það var meira loft í þeim. Við vorum mjög slakir einum fleiri. Ég held að við förum með tíu dauðafæri og það er ekki boðlegt í Olís-deildinni að klúðra svona mörgum dauðafærum.“

„Phil Döhler reyndist okkur mjög erfiður og Einar Bragi skorar tíu mörk úr tíu skotum. Það er galið. Þetta var ekki gott en svona er þetta bara.“

Fram byrjaði svo sem ágætlega en undir lok fyrri hálfleiks skoraði liðið eitt mark á einhverjum tíu mínútna kafla. Við það náði FH upp forskoti fyrir hálfleikinn.

„Við förum með einhver fjögur, fimm dauðafæri. Döhler lokaði markinu og þeir ná upp þriggja marka forystu. Við náðum því upp en jöfnum ekki. Við vorum klaufar. FH barðist og þeir sýndu meiri karakter, en við vorum sjálfum okkur verstir.“

Luka Vukicevic skoraði aðeins eitt mark í þessum en hann er ekki að mæta nægilega sterkur til leiks eftir pásuna löngu.

„Hann hefur ekkert getað í þessum tveimur leikjum, því miður. Þetta stendur ekki og fellur með honum. Menn geta alveg átt tvo lélega leiki,“ sagði Einar en þegar viðtalið var tekið þá voru ungir drengir að berja hátt á trommur í stúkunni. „Það hefði mátt vera svona stemning á meðan leikurinn var,“ sagði Einar léttur.

„Við vorum ekki nógu góðir sem lið og við þurfum meira framlag frá honum (Luka) og fleiri leikmönnum,“ sagði þjálfari Fram að lokum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×