Handbolti

Björgvin Páll býðst til að vinna í sjoppunni hjá KA í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson er til í sjálfboðavinnu fyrir KA í kvöld.
Björgvin Páll Gústavsson er til í sjálfboðavinnu fyrir KA í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson er þakklátur KA-mönnum fyrir að flýta leik KA og Vals í Olís deild karla í handbolta í kvöld en leikurinn var að lokum færður fram um hálftíma.

Björgvin Páll er leikmaður Vals og hafði áður sagt frá óánægju sinni á samfélagsmiðlum þegar KA vildi ekki flýta leik liðanna. Leiknum var síðan á endanum flýtt eftir allt fjaðrafokið í dag.

Handknattleiksambandið gaf það út áðan að leikurinn yrði færður fram til klukkan 17.30. Það er slæm veðurspá í kvöld og þessi hálftími gæti hjálpað Valsmönnum við að komst aftur suður í kvöld.

Valsmenn eru að spila marga leiki þessa dagana, eru nýkomnir heim frá Flensburg í Þýskalandi og spila annan mikilvægan leik í Evrópudeildinni á þriðjudaginn. Það er því allt annað en gott mál að lenda líka í því að vera veðurtepptir.

Björgvin er þakklátur í nýjustu færslu sinni á Twitter. Hann býður sig fram í sjálfboðavinnu í kvöld verði Valsmenn veðurtepptir fyrir norðan.

„Takk KA! Félagið hefur orðið að ósk okkar um að flýta leik dagsins til að auka líkurnar á því að við komust heim í kvöld. Ef það tekst ekki þá er ég klár í aðstoða félagið í sjálfboðavinnu kvöldsins er tengist þeim leikjum sem eru á eftir okkar. Hvort sem það er að vinna í sjoppunni, taka niður skilti eða hjálpa markmönnum félagsins eitthvað,“ skrifar Björgvin Páll og endar á myllumerkinu Við erum öll í þessu saman.

Bjögvin Páll mælir svo með því að allir Valsarar og allt handboltafólk horfi á leikinn á KA TV.

„Besta félagið þegar kemur að útsendingum félaga og kærkomið að styrkja þeirra starf,“ skrifaði Björgvin eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×