Handbolti

Hall­dór Stefán tekur við KA í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýr þjálfari KA.
Nýr þjálfari KA. KA

Handknattleiksdeild KA hefur staðfest að Halldór Stefán Haraldsson muni taka við þjálfun liðs KA í Olís deild karla í sumar. Hann skrifar undir þriggja ára samning.

Frá þessu er greint á vef KA. Félagið hefur verið í leit að þjálfara fyrir meistaraflokk karla síðan það varð ljóst að Jónatan Magnússon yrði ekki áfram með liðið að loknu þessu tímabili.

Hinn 32 ára gamli Halldór Stefán hefur verið lengi í þjálfun þrátt fyrir ungan aldur. Hann hefur þjálfað kvennalið Fylkis, yngri landslið kvenna og Volda í Noregi frá árinu 2016.

„Halldór er einnig ráðinn sem afreksþjálfari hjá KA og er honum ætlað að koma enn meiri metnaði í afreksþjálfun fyrir yngri iðkendur hjá handknattleiksdeild KA. Einnig mun hann vera til aðstoðar og ráðlegginga við þjálfun á ungmennaliði sem og liði 3. flokks karla,“ segir í tilkynningu KA.

KA er í 10. sæti Olís deildarinnar með 11 stig eftir 14 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×