Handbolti

Ágúst: Við ætlum að reyna að tapa í undanúrslitum

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Ágúst Jóhannsson var léttur á því eftir leik.
Ágúst Jóhannsson var léttur á því eftir leik. Vísir/Hulda Margrét

Ágúst Jóhannsson var ánægður með að hans lið væri búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum Powerrade-bikarsins í handknattleik. Valur lagði Fram örugglega í 8-liða úrslitum í kvöld.

„Ég var ánægður með þetta,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, eftir sigurinn á Fram í kvöld.

„Við vorum klaufar að vera ekki meira yfir í hálfleik. Við vorum að gera feila á lokamínútum fyrri hálfleiks sem hefðu getað kostað okkur mikið. Þegar líða fór á seinni hálfleik þá náðum við að spila á fleiri mönnum og það virtist vera meira á tanknum hjá okkur.“

Hver var lykillinn að þessum sigri?

„Varnarleikurinn var heilt yfir góður. Við náðum að loka vel á Steinunni og það var lítið línuspil. Við náðum að keyra fínt á þær og svo fannst mér uppstilltur sóknarleikur góður. Við gerðum lítið af tæknifeilum og þær fengu lítið af hraðaupphlaupum á okkur sem er lykilatriði gegn sterku liði eins og Fram.“

Varnarleikur Vals var mjög svo sterkur, sérstaklega í seinni hálfleiknum þar sem Fram gekk bölvanlega að skora.

„Varnarleikurinn var virkilega góður og markvarslan kom aðeins upp í seinni hálfleik. Þetta var sanngjarn og góður sigur hjá okkur.“

Valur er ríkjandi bikarmeistari. Er ekki stefnan á að vinna þessa keppni aftur?

„Nei, við ætlum að reyna að tapa í undanúrslitum,“ sagði Gústi léttur. „Að sjálfsögðu ætlum við að reyna að vinna hann. Það er markmiðið. Þetta er eitt skref í einu samt.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×