„Þetta er auðvitað mjög svekkjandi. Sérstaklega í ljósi þess að mér fannst við eiga bara dálítið inni,“ sagði Alexander að leik loknum.
„Við náðum okkur ekki á strik varnarlega og áttum erfitt með að leysa þeirra sóknarleik. Það var svo sem alltaf ljóst að það væri á brattann að sækja á móti þessu liði, en mér fannst við hefðum mátt gera betur.“
Þrátt fyrir að Alexander tali um að honum hafi þótt sitt lið mega gera betur í leiknu verður ekki tekið af Valsmönnum að þeir stóðu lengi vel í ógnarsterku liði Flensburg.
„Mér fannst við eiga inni. Við náðum náttúrulega forystu í seinni hálfleik. Við erum einu marki yfir þegar það eru tuttugu mínútur eftir og þá er bara leikur. Þá er líka bara markmiðið að halda þessu í leik þegar það er svona langt liðið á leikinn og svo bara vonast eftir áhlaupi síðustu mínúturnar.“
„En það fór eiginlega á hinn veginn. Þeir náðu að opna okkur og við gáfum eftir.“
Valsmenn taka á móti Benidorm í áttundu umferð riðlakeppninnar í Evrópudeildinni þar sem Valsmenn þurfa á sigri að halda til að eiga enn góðan möguleika á að komast upp úr riðlinum.
„Það er bara stórleikur á móti Benidorm og við erum auðvitað bara spenntir að fá aftur heimaleik. Það er alltaf mikil veisla í höllinni og ég vil bara nýta tækifærið og skora á Valsmenn að mæta. Við þurfum á stuðningnum að halda því þetta er lykilleikur í baráttunni um að komast upp úr riðlinum,“ sagði Alexander Örn að lokum.