Kolstad var mætt til Sandefjord þar sem þeir mættu heimamönnum í Runar. Skemmst er frá því að segja að sigur Kolstad í dag var öruggur. Staðan í hálfleik var 19-14 gestunum í vil sem strax í upphafi höfðu náð ágætri forystu.
Lið Runar hélt ágætlega í við Kolstad í upphafi síðari hálfleiks en síðan skildu leiðir endanlega og Kolstad vann að lokum tíu marka sigur, lokatölur 36-26.
Sigvaldi Björn var markahæstur í liði gestanna en hann skoraði átta mörk úr ellefu skotum. Janus Daði skoraði fimm mörk og gaf þar að auki átta stoðsendingar.
Fleiri Íslendingalið léku í dag. Hafþór Vignisson komst ekki á blað hjá Arendal sem vann 29-28 sigur á Bækkelaget og Orra Frey Þorkelssyni tókst ekki að skora úr eina skotinu sem hann átti á mark þegar lið hans Elverum vann góðan útisigur á Sandnes. Lokatölur þar 31-24.
Óskar Ólafsson skoraði hins vegar þrjú mörk fyrir Drammen sem tapaði á útivelli fyrir Kristiansand. Lokatölur 40-35 en Óskar nýtti öll skot sín í leiknum og gaf þar að auki tvær stoðsendingar.