Skoðun

Strætósamgöngur milli KEF og RVK eru óboðlegar

Hildur Sverrisdóttir skrifar

Ég lagði í gær fram fyrirspurn til innviðaráðherra um almenningssamgöngur til Keflavíkuflugvallar. Hún lætur frekar lítið yfir sér en snertir mál sem er mikilvægara en það virðist í fyrstu.

Keflavíkurflugvöllur er langmikilvægasta gátt Íslendinga út í heim og gesta til Íslands. Flugvöllurinn er í um 50 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni en þaðan liggja allar leiðir um landið.

Það er auðvitað hverjum frjálst að taka rútur ferðaþjónustufyrirtækjanna, leigubíla eða greiða fyrir eigin bíl í langtímastæði. Samt er það grundvallarmál að í boði séu almenningssamgöngur sem virka til og frá mikilvægasta alþjóðaflugvelli landsins og höfuðborgarinnar. Það er jafnræðismál ekki síður en öryggisatriði. Það geta ekki allar fjölskyldur séð af bílnum meðan einn fer til útlanda, það eiga ekki allir bíla og það treysta sér ekki allir til að keyra til Keflavíkur um miðja vetur.

Merki um þróað nútímasamfélag

Gestir frá nágrannalöndum eru sömuleiðis vanir því að aðgengilegar samgöngur séu í boði og gangi smurt fyrir sig frá flugvelli og í miðborg. Þetta einfaldlega þykir merki um þróað og nútímalegt samfélag og er partur af samkeppnishæfni ferðaþjónustu landsins.

Strætó í lamasessi

Staðan er hins vegar sú að allt sem viðkemur Strætó og ferðum milli flugvallarins og höfuðborgarinnar er í hálfgerðum lamasessi. Upplýsingar og merkingar um aðgengi að strætisvögnum eru af mjög skornum skammti í flugstöðinni. Strætisvagnastöðin er fjarri flugstöðvarbyggingunni og hvorki aðgengileg né augljós.

Ferðum Strætó er svo þannig háttað að engan veginn er hægt að treysta á að komast í eða úr flugi, sem oftar en ekki er að nóttu eða mjög snemma morguns. Leiðirnar ganga ekki einu sinni alltaf alla leið til Reykjavíkur.

Vegagerðin hefur þá ábyrgð að stuðla að öruggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum alþenningssamgöngum milli staða á landsbyggðinni. Það getur varla staðist að Keflavíkurflugvöllur falli ekki undir þá skilgreiningu.

Hér á einfaldlega að vera hægt að komast út á flugvöll á öruggan, sjálfbæran, hagkvæman og greiðan hátt. Spurningar mínar til ráðherra lúta að ýmsum þáttum sem koma þessu við. Ég held við eigum að velta þeim upp, skoða hvað kemur í veg fyrir að þetta kerfi virki, og laga þetta.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×