Handbolti

Lið Hauks klárar tímabilið en framtíðin óráðin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagar Kielce sem eins sterkasta liðs Evrópu gætu verið taldir.
Dagar Kielce sem eins sterkasta liðs Evrópu gætu verið taldir. getty/Martin Rose

Pólska stórliðið Kielce, sem Haukur Þrastarson leikur með, mun klára tímabilið en ákvörðun um framtíð þess verður tekin í mars.

Kielce á í fjárhagsvandræðum og hefur leitað logandi ljósi að styrktaraðilum undanfarnar vikur. Stærsti styrktaraðili Kielce, drykkjarvöruframleiðandinn Van Pur, hætti að styrkja félagið í byrjun þessa árs.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Kielce og hvort liðið geti hreinlega klárað tímabilið heima fyrir og í Meistaradeild Evrópu. Á stjórnarfundi hjá Kielce í gær var ákveðið að ljúka tímabilinu en ákvörðun um framtíð félagsins yrði tekin í mars.

Búist er við miklum flótta frá Kielce eftir tímabilið. Ungversku meistararnir Pick Szeged ætla til að mynda að sæta lagi og hafa boðið Dujshebaev-fegðunum samninga. Talant Dujshebaev er þjálfari Kielce og synir hans, Alex og Daniel, leika með liðinu.

Haukur er samningsbundinn Kielce næstu árin. Hann er nú í endurhæfingu eftir að hafa slitið krossband í hné í leik með liðinu í desember.

Kielce hefur orðið pólskur meistari ellefu ár í röð. Þá vann liðið Meistaradeildina 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×