Handbolti

Guðmundur og Dagur fengu langbestu kosningu

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson fékk flest atkvæði í kosningu Vísis en litlu munaði á honum og Degi Sigurðssyni.
Guðmundur Guðmundsson fékk flest atkvæði í kosningu Vísis en litlu munaði á honum og Degi Sigurðssyni. VÍSIR/VILHELM

Alls vilja 35% lesenda Vísis að Guðmundur Guðmundsson verði áfram landsliðsþjálfari karla í handbolta. Guðmundur hlaut flest atkvæði í könnun sem alls 10.839 manns tóku þátt í.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í beinni útsendingu í Pallborðinu á Vísi í dag. Guðmundur hlaut flest atkvæði eða 3.789 talsins en fast á hæla honum, með 33% atkvæða, kom Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfara Japans með 3.532 atkvæði. Niðurstöðurnar má sjá neðst í greininni.

Dagur Sigurðsson hefur síðustu ár stýrt japanska landsliðinu.EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany

Guðmundur og Dagur eiga það sameiginlegt að vera samningsbundnir fram á næsta ár, Guðmundur sem þjálfari Íslands og Dagur sem þjálfari Japans, og sagði formaður HSÍ í samtali við Vísi að ekki stæði til að skipta um mann í brúnni, þrátt fyrir að Ísland skyldi enda í 12. sæti HM.

Alfreð Gíslason, þjálfari karlalandsliðs Þýskalands, varð í 3. sæti í könnun Vísis með 10% atkvæða og þeir Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennalandsliðs Noregs, og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals, komu næstir á eftir. Alfreð hefur áður stýrt íslenska landsliðinu, á árunum 2006-2008.

Aðeins 337 manns, eða 3% þeirra sem kusu, vildu sjá erlendan þjálfara taka við íslenska landsliðinu. Niðurstöður könnunarinnar má sjá í heild hér að neðan.

Niðurstöður könnunar Vísis á meðal lesenda um hver eigi að stýra íslenska karlalandsliðinu í handbolta. Alls tóku 10.839 manns þátt.Vísir/SARA




Fleiri fréttir

Sjá meira


×