Umfjöllun og viðtöl: Valur - Grindavík 92-67 | Engin bikarþynnka á Hlíðarenda

Árni Jóhannsson skrifar
Valsmenn urðu bikarmeistarar um síðustu helgi.
Valsmenn urðu bikarmeistarar um síðustu helgi. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Valsmenn lögðu Grindvíkinga með öruggum hætti í 13. umferð Subway deildar karla. Frammistaðan var fagmannleg og sigurinn ekki í hættu í seinni hálfleik. Leikar enduðu 92-67 og Valsmenn styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar.

Það voru Grindvíkingar sem byrjuðu leikinn örlítið betur en þeir náðu að stöðva Valsmenn í sínum sóknaraðgerðum og náðu fimm stiga forskoti snemma. Það sem hefur væntanlega pirrað þá er að þeir fengu ekki nógu margar körfur til baka eftir góðan varnarleik og því var tækifæri fyrir Val að jafna metin jafnharðan í 8-8 og forskotið leit dagsins ljós. Valur komst þá fjórum stigum yfir 19-15 en Grindvíkingar minnkuðu muninn niður í eitt stig fyrir lok fyrsta fjórðungs. Grindvíkingar hittu illa úr tveggja stiga skotum sínum sem flest voru undir körfunni en á móti var Valur ekki að ná að nýta vítin sín vel.

Annar fjórðungur var með svipuðu sniði. Valsmenn náðu smá forskoti en Grindvíkingar nöguðu það niður og jöfnuðu og var staðan 32-32 þegar um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Bæði lið höfðu átt slæma og góða kafla á báðum endum vallarins en á þessum tímapunkti urðu þáttaskil í leiknum. Valsmenn settu þá sex stig í einni sókn og við grípum niður í textalýsinguna:

„Undarleg augnablik að eiga sér stað. Óli Óla er að reyna að stíga út vítaskot sem Hjálmar er að missa og alltaf er flautað þangað til í þriðja sinn þegar Valsmenn ná í sóknarfrákast og Kári neglir niður þrist. Það er dæmd villa og Callum Lawson tekur tvö víti. Bæði víti fara ofan í og þetta var sex stiga sókn ef talningarkunnáttta mín er ekki að svíkja mig. Grindavík tekur leikhlé þegar 3:12 er eftir. Þetta var alvöru sveifla og gæti talið helling í lok leiks, það var allt jafnt fyrir smá stund síðan.“

Grindvíkingar skoruðu ekki nema tvö stig það sem eftir var af fyrri hálfleik og mátti segja að þeir hafi misst hausinn við þetta mótlæti. Valsmenn héldu sjó og bættu við níu stigum, þar af flautuþrist, þannig að andinn og stemmningin var öll Valsmegin þegar gengið var til búningsherbergja.

Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og var eins og Grindvíkingar voru ekki að ná tökum á því um hvað þeir hugsuðu. Þangað til um miðjan leikhlutann. Þá áttu gestirnir góða runu og minnkuðu muninn niður í fimm stig en voru svo klaufar að ná ekki að ganga enn lengra. Valsmenn geng á lagið og skoruðu sjö stig í röð og höfðu heppnina einnig með sér í liði t.d. varðandi sóknarfráköst. Þriðja leikhluta lauk með 12 stiga forskoti heimamanna 63-51 og var það mál manna að Valsmenn væru með góð tök á leiknum.

Aftur kom dómaratríóið vitlaust við Grindvíkinga og var alveg hægt að vorkenna þeim en Ólafur Ólafsson fékk tvær aumar villur með skömmu millibili og lauk þar með leik með fimm villur. Aftur misstu Grindvíkingar einbeitinguna og Valsmenn náðu að sigla muninum upp í 20 stig og 25 stig þegar yfir lauk. Grindvíkingar áttu góðar rispur en þær voru stuttar og Valsmenn áttu alltaf svör til að slökkva litla neista sem mynduðust hjá Grindavík. Leik lauk með 25 stiga sigri heimamanna 92-67 sem styrktu stöðu sína á toppi deildarinnar.

Afhverju vann Valur?

Það má lýsa frammistöðu Vals sem fagmannlegri. Þeir náðu að spila af eðlilegri getu þrátt fyrir að goðsögnin um bikarþynnku hafi hangið yfir þeim. Grindvíkingar hins vegar náðu ekki að einbeita sér að þeim hlutum sem þeir hafa stjórn á og Valsmenn gengu á lagið og gengu frá andstæðingum sínum.

Bestir á vellinum?

Kári Jónsson leiddi sína menn í gegnum þetta verkefni og var stigahæstur með 19 stig. Að auki var hann með sex fráköst og fimm stoðsendingar og samanlagt 21 framlagspunkt sem var það mesta sem leikmaður lagði fram í kvöld. Hann fékk hjálp úr mörgum áttum og var Kristófer Acox t.a.m. með tvöfalda tvennu 11 stig og tíu fráköst.

Hjá Grindavík var Pitts með 19 stig og fimm stoðsendingar og sex fráköst. Ólafur Ólafsson var einn af tveimu síðan til viðbótar með yfir 10 stig í leiknum en hans naut ekki við í sjö mínútur í lokin og munaði heldur betur um.

Tölfræði sem vakti athygli?

Þrátt fyrir allt þá tapaði Valur 11 fleiri boltum en Grindavík, 17-6 í þeim efnum, gestirnir hinsvegar nýttu ekki nema 32% af skotum sínum gegn 52% skotnýtingu Valsmanna og þar má segja að hundurinn liggi grafinn. Því til dæmis þá voru Grindvíkingar afleitir undir körfunni og áttu mjög erfitt með sniðskot og skot sem Mikan æfingin ætti að geta lagað.

Hvað næst?

Valur heldur í Kópavog og etur kappi við Breiðablik. Þar mætast ólíkir stílar en aftur mæta Valsmenn liði sem hefur átt erfitt með að einbeita sér að körfuboltanum. Það gæti verið góðs viti fyrir Val.

Grindvíkingar fá granna sína úr Keflavík í heimsókn og það verður svo sannarlega við rammann reip að draga þar.

Kári: Allir sigrar gulls ígildi í þessari deild

Kári Jónsson var stigahæstur á vellinum í kvöldVísir/Bára Dröfn

Stigahæsti leikmaðurinn í kvöld, Kári Jónsson, gat verið glaður með sína menn og úrslit leiksins. Hann var spurður að því hvort ekki væri hægt að meta frammistöðu Vals liðsins sem fagmannlega í kvöld.

„Jú ég held að ég verði að vera sammála því. Við vorum flottir varnarlega og svo rúllaði sóknin ágætlega. Grindavík fór aldrei og voru alltaf hangandi í okkur en við hleyptum þeim aldrei of nálægt til að gera þettta virkilega spennandi.“

Hvað fór í gegnum hausinn á Valsmönnum þegar Grindvíkingar gerðu sig líklega verandi ólíkindatólin sem þeir eru oft?

„Við gerðum það bara með góðum stoppum og auðveldum körfum í bakið á þeim þar sem við fengum auðveld stig. Þau voru virkilega mikilvæg. Við gerðum vel í því að standa af okkur áhlaupin þeirra. Fagmannleg frammistaða.“

Þjálfari Valsmanna, Finnur Freyr Stefánsson, hafði áhyggjur fyrir leik af bikarþynnkunni frægu. Voru leikmenn Vals meðvitaðir um hana og var haft orð á því fyrir leik?

„Nei nei ekki þannig. Nú er bara deildinn byrjuð aftur og við vildum sýna að þetta ætti ekki við og að við gætum mætt einbeittir. Mér fannst við gera það nokkuð vel, vorum lengi í gang en svo rúllaði þetta vel.“

Þessi sigur bætir samt væntanlega við sjálfstraust liðsins og svona sigrar jafnvel gulls ígildi?

„Allir sigrar gulls ígildi í þessari deild. Við verðum að ná þeim sem flestum og tökum þeim öllum jafn glaðir.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira