Handbolti

Svíar gagnrýndir heima fyrir: „Ég vil helst ekki tjá mig“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jim Gottfridsson vildi sem minnst segja um rútumálið.
Jim Gottfridsson vildi sem minnst segja um rútumálið. Samsett/Getty

Svíar hófu leik á HM karla í handbolta í gær er þeir lögðu Brasilíu örugglega, 26-18, á heimavelli í Scandinavium-höllinni í Gautaborg. Það er hins vegar koma liðsins í höllina sem hefur sætt gagnrýni.

Landsliðið dvelur á Hótel Opalen í miðri Gautaborg, sem er staðsett aðeins 300 metra frá keppnishöllinni. Síðast þegar liðið lék á heimavelli, á HM 2011, gisti liðið um fimm kílómetra fyrir utan borgina.

„Það eru ókostir við að vera staðsettir ekki fyrir utan bæinn. En það er mikill kostur að geta farið um allt án vandræða,“ segir markvörðurinn Mikael Appelgren.

„Nú þurfum við ekki að eyða tíma í ferðir og slíkt vesen. Umferðin í Gautaborg er algjörlega vonlaus,“ segir landsliðsþjálfarinn Glenn Solberg um staðsetningu liðsins.

Sjónvarpsstöðvarnar vilja rútumyndir

Svíar þurfa samt að glíma við bílaumferðina í Gautaborg. Þrátt fyrir þá stuttu fjarlægð sem er á milli hótels og hallar tók liðið rútu þar á milli. Það þykir gagnrýnivert, enda um óþarfa útblástur að ræða þar sem það tæki liðið örfáar mínútur að ganga milli staða.

„Ég vil helst ekki tjá mig um það,“ segir Jim Gottfridsson, stjarna sænska liðsins.

„Þetta hefur að gera með sjónvarpsstöðvarnar. Þeir vilja ná myndum af okkur að stíga út úr rútunni,“ segir þjálfarinn Solberg.

Menn vilji ekki taka stanslausar myndir á leiðinni

Svíar segja þetta einnig mikilvægt vegna undirbúnings fyrir leik.

„Með þessum hætti er gott að geta einblínt á það sem við þurfum að gera,“ segir Solberg, en óvíst er að heilt sænskt landslið yrði látið í friði á röltinu í keppnishöllina.

„Þú hefur ekki beint tíma til að taka 55 selfie á leiðinni í leikinn, þú vilt heldur komast á staðinn í rútunni, í þinni búbblu,“ segir Gottfridsson, og vísar þar til Covid-reglna í tengslum við mótið.

Öll lið voru skimuð fyrir veirunni fyrir mót og verða að taka hraðpróf eftir riðlakeppnina, áður en keppni í milliriðlum hefst.

Svíar stefna hraðbyr á milliriðil mótsins en þar munu þeir mæta Íslendingum ef bæði lið komast þangað. Sá riðill verður einnig leikinn í Gautaborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×