Þegar indverski veitingastaðurinn Indican opnaði í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem Páll Óskar er búsettur, ákvað Palli að fara og smakka. Heimsóknin endaði með því að Palli lýsti yfir ánægju sinni í myndbandi sem fór síðan eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum.
Í ljósi aðdáunar Palla á matnum skaut Valgeir Gunnlaugsson, eigandi Indican því að honum að hann ætti nú bara að gerast meðeigandi hans í nýja staðnum sem opnar nú í Borg29 mathöllinni, fyrst hann elskaði matinn svona mikið.
Palli tók boðinu og úr varð samstarf.
Vísir sló á þráðinn til Palla og spurði hann út í veitingareksturinn og þessa stóru ákvörðun.
„Þetta með Indican gerist alveg yndislega sjálfkrafa,“ segir Palli og bætir því við að hann hafi verið mikill aðdáandi Valgeirs og hans veitingastaða en hann á einnig Íslensku flatbökuna.
Skemmtilegast að afgreiða ánægða viðskiptavini
Hann segir aðdáun sína á staðnum vera einlæga.
„Eftir svolitla umhugsun ákvað ég að kýla á þetta og ég vil gera þetta vegna þess að varan er góð. Ég er í alvörunni aðdáandi staðarins, ég er aðdáandi sem þróast út í það að verða meðeigandi,“ segir Palli og bætir því við að hann verði andlit staðarins út á við og lesi inn á auglýsingar. Þar að auki bjó hann til slagorð staðarins „alveg gaalið gott“ en setningin vall upp úr honum þegar hann smakkaði matinn í fyrsta sinn.

Palli keypti sig inn í reksturinn í mathöllinni og á nú tíu prósent þar. Hann segist hlakka til að fá að læra af reynsluboltum í bransanum, afgreiða viðskiptavini og prófa eitthvað nýtt. Eigendur Indican eru því orðnir þrír en auk Valla og Palla á Daði Laxdal hlut í rekstrinum.
„Svo þegar það er mikið að gera í mathöllinni, sérstaklega kannski í hádeginu á föstudögum, þá stend ég vaktina og afgreiði viðskiptavini og ég hlakka alveg svakalega til þess. Eitt skemmtilegasta starf sem ég hef unnið í lífinu var að afgreiða viðskiptavinina á Aðalvídeóleigunni á Klapparstíg í gamla daga. Þar vann ég þegarfólk notaði VHS spólur. Ég var þar frá sirka 1989 til 1992,“ segir Palli.
Nýr staður Indican opnar í Borg29 mathöllinni næsta föstudag og mun Palli afgreiða viðskiptavini staðarins frá 11:30 til 13:30.
Hann segist mæla með því að fólk sem hafi aldrei komið á Indican áður byrji á því að prófa Butter chicken og osta naan.
„Það var það sem ég fríkaði út af í þessu vídeói,“ segir Palli.