Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 18-22 | ÍBV vann annan stórleikinn í röð

Hinrik Wöhler skrifar
Sunna Jónsdóttir og stöllur hennar í ÍBV gerðu góða ferð í Garðabæinn.
Sunna Jónsdóttir og stöllur hennar í ÍBV gerðu góða ferð í Garðabæinn. vísir/hulda margrét

ÍBV vann mikilvægan sigur á liði Stjörnunnar í kvöld í TM-höllinni í Garðabæ. Eyjakonur sigruðu leikinn með fjórum mörkum eftir afar kaflaskiptan leik. Fyrir leikinn sátu liðin í öðru og þriðja sæti í Olís-deild kvenna og voru með jafnmörg stig, eða sextán talsins eftir tíu leiki.

ÍBV átti sannkallaða draumabyrjun og komust Eyjakonur í 7-0 eftir ellefu mínútur. Þær geta þakkað markverði sínum Mörtu Wawrzynkowska fyrir þessa byrjun en hún setti í lás og varði allt sem á markið kom. Önnur eins byrjun hjá markverði er vandfundin.

Eftir þennan frábæra kafla Eyjakvenna snerist leikurinn við og Garðbæingar, með Helenu Rut Örvarsdóttur í fararbroddi, gengu á lagið og náðu að jafna áður en var blásið til hálfleiks, en staðan var 9-9 í hálfleik.

Mikil líkindi voru með fyrri og seinni hálfleik. Stjörnukonur drógu ekki lærdóm af fyrri hálfleik og voru afar andlausar í byrjun síðari hálfleiks. Þær töpuðu boltunum klaufalega í sókninni og létu Mörtu verja frá sér. Líkt og í fyrri hálfleik röðuðu gestirnir inn mörkum en ÍBV skoruðu fyrstu átta mörkin áður en að Stjarnan rankaði við sér um miðbik síðari hálfleiks með fjórum mörkum í röð og munurinn kominn niður í fjögur mörk.

Í þetta sinn náðu Eyjakonur að standast áhlaupið en Stjarnan náði mest að minnka muninn í þrjú mörk undir lok leiksins. Nær komust heimakonur ekki og fara gestirnir sigurreifir til Vestmannaeyja.

Þar með vann ÍBV sinn sjöunda leik í röð í deildinni og eru aðeins einu stigi eftir Valskonum sem sitja í toppsætinu með nítján stig.

Af hverju vann ÍBV?

Frábær byrjun í fyrri og seinni hálfleik skóp sigurinn fyrir ÍBV. Eyjakonur komu einbeittari til leiks og nýttu færin betur en gestirnir. Stjörnukonur áttu ærið verkefni fyrir höndum eftir að Eyjakonur náðu að skora átta mörk í seinni hálfleik og var munurinn orðinn of mikill fyrir Stjörnuna.

Hverjar stóðu upp úr?

Það er ekki hægt að líta fram hjá stórbrotinni frammistöðu Mörtu Wawrzynkowska í marki ÍBV. Hún lokaði markinu í byrjun leiks og hún varði skot í öllum regnbogans litum, bæði skot utan af velli og dauðafæri. Með rúmlega tuttugu skot varin í kvöld er auðvelt að velja hana leikmann leiksins.

Hjá heimakonum var það Helena Rut sem var fremst meðal jafningja en hún skoraði átta mörk, næstum því helming marka Stjörnunnar, ásamt því að standa vörnina vel.

Hvað gekk illa?

Færanýting Stjörnukvenna var afar dræm í byrjun leiks og sömuleiðis voru þær duglegar að kasta frá sér boltanum í byrjun síðari hálfleiks, hvort það sem var skref, ruðningur eða lélegar sendingar. Stjarnan gerir þó vel að koma til baka í bæði skiptin en átta mörk í röð frá ÍBV í seinni hálfleik er of stór biti til að kyngja.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leiki næsta laugardag, eftir þrjá daga. Stjörnukonur eiga leik á heimavelli á móti toppliði Vals. Valur verða án þjálfara síns, Ágúst Jóhannssonar, sem er með karlalandsliðinu á HM í handbolta í janúar.

Eyjakonur eiga einnig leik á heimavelli en það er lið Hauka sem kemur í heimsókn.

Hrannar: „Við gáfumst ekki upp þó að við höfum lent í basli“

Hrannar Guðmundsson er þjálfari Stjörnunnar.

Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var skiljanlega þungur á brún eftir leikinn. Hrannar segist ekki hafa skýringar á slæmri byrjun hjá sínu liði.

„Ég veit ekki hvað gerist í byrjun leiks, þetta var mjög skrýtinn leikur. Fyrstu tíu mínúturnar í fyrri hálfleik sérstaklega. Við vorum að fá dauðafæri en hún Marta bara varði og varði. Mér fannst við eiga að leiða eftir fyrri hálfleikinn þó að þær hafa náð 7-0 kafla í byrjun leiks.“

Það sama gerðist í upphafi síðari hálfleiks þar sem Eyjakonur skoruðu átta mörk í röð. Eftir átta mínútna leik í seinni hálfleik var Hrannar búinn að taka tvö leikhlé. „Ég sagði þeim einfaldlega að berjast. Við gerðum það og við gáfumst ekki upp þó að við höfum lent í basli og við héldum áfram. Við gerðum þetta að leik í lokinn sem er ótrúlegt eftir að hafa lent í 8-0 kafla í seinni hálfleik og 7-0 í fyrri hálfleik. Við vorum eiginlega sjálfum okkar verstar.“

Fram undan hjá Stjörnunni er annar stórleikur og nú er það topplið Vals sem kemur í heimsókn í TM-höllina á laugardaginn. „Ég er mjög gíraður fyrir leiknum á laugardaginn, fyrst að við töpuðum þessu er ég enn gíraðri fyrir leiknum á laugardag. Við erum að fara í stríð og horfum bara upp á við.“ sagði Hrannar í leikslok.

Marta: „Ég er bara þakklát og ánægð að geta hjálpað liðinu mínu“

Marta Wawrzynkowska var frábær í liði ÍBV í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Marta Wawrzynkowska varði eins og berserkur í leiknum og af öðrum ólöstuðum besti leikmaðurinn á vellinum í kvöld.

„Ég er bara þakklát og ánægð að geta hjálpað liðinu mínu,“

„Ég hafði ekki áhyggjur af leiknum, ég reyndi mitt besta til að halda einbeitingu og gerði mína hefðbundnu rútínu í hálfleik sem hjálpar mér að halda einbeitingu. Ég var einbeitt allan leikinn, ekki stressuð.“

Tímabilið er byrjað að líta vel út fyrir Eyjakonur eftir hæga byrjun í upphafi tímabils.

„Ég er mjög sátt með tímabilið hingað til. Það er þó talsvert eftir af tímabilinu og nú erum við að sigla inn í seinni helming tímabilsins. Við verðum bara að halda áfram að æfa vel til að vinna titilinn.“ sagði Marta að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.