Skoðun

Boris, Brussel og bandarískir bændur

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Það sem Boris Johnson fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins breska vann sér helst til frægðar áður en hann varð andlit Brexit, þrautagöngu bresku þjóðarinnar, var að skrifa skemmtisögur frá Brussel „höfuðborg Evrópusambandsins“ í breska fjölmiðla.

Markmiðið var að sýna fram á fáránleika Evrópusamvinnunnar og helgaði tilgangurinn sannarlega meðalið. Fréttaritarinn lét þannig sannleikann ekki þvælast of mikið fyrir. Og skemmtilegar voru „fréttirnar“ oft. Til dæmis sú að Evrópusambandið vildi setja reglur um eina tiltekna smokkastærð sem átti að passa öllum. Líka sú að Evrópusambandið vildi banna beygða banana. Listinn er mun lengri.

Þessar uppdiktuðu Evrópusambandsfréttir Boris Johnson komu upp í hugann núna þegar fjölmiðlar segja af því fréttir að loksins hafi bandarískir bændur fengið leyfi til að gera sjálfir við traktorana sína. Forsagan er sú að stórir framleiðendur traktora og annarra landbúnaðarvéla hafa komist upp með að hindra viðskiptavini sína í að gera við eigin vélar eða leita til sjálfstæðra verkstæða. Þetta hafa framleiðendur gert með því að selja ekki varahluti og láta það síðan hafa áhrif á ábyrgðarskilamála vélanna ef gert er við þær með varahlutum annarra framleiðenda.

Þessi sigur bandarískra bænda mun vera hluti af baráttu stærri hreyfingar bandarískra neytenda sem krefjast þess að geta ráðið för með val á viðgerðum á eigin vöru. Þetta er risastórt hagsmunamál bandarískra neytenda sem um árabil hafa setið skör neðar en evrópskir neytendur þar sem Evrópusambandið hefur séð til þess að í gildi eru reglur sem skikka framleiðendur til að hafa varahluti á boðstólum fyrir neytendur og sjálfstæða rekstraraðila. Nokkuð sem skilar sér í lægra verði til neytenda fyrir utan þau sjálfsögðu réttindi að ráða för með eigin tæki.

Það var ekki sigur bandarísku bændanna sem minnti mig á Boris Johnson. Og augljóslega ekki heldur sú vel þekkta staðreynd að Evrópusambandið passar upp á neytendur sína. Nei, það var þetta með að bandarískir framleiðendur gætu haldið neytendum, viðskiptavinum sínum, svona í heljargreipum sérhagsmunanna. Það hefði getað verið skáldskapur fréttaritarans í Brussel á sínum tíma.

Svo er það áleitin spurning hvort breskir neytendur væru ekki í betri stöðu í dag hefði fréttaritarinn í Brussel haldið sig við staðreyndir.

Höfundur er þ ingflokksformaður Viðreisnar



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×