Handbolti

Logi reyndi að útskýra handbolta fyrir Kobe á Ólympíuleikunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Logi Geirsson og Kobe Bryant fengu báðir medalíu á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Logi Geirsson og Kobe Bryant fengu báðir medalíu á Ólympíuleikunum í Peking 2008. vísir/vilhelm/getty

Logi Geirsson lenti í því að reyna að skýra út fyrir einni skærustu stjörnu NBA-deildarinnar í körfubolta hvað handbolti væri á Ólympíuleikunum í Peking.

Logi var gestur sjöunda þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar, um framgöngu íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum í Peking 2008.

Logi kom víða við í þættinum og rifjaði meðal annars upp skemmtilegt atvik frá einu kvöldi í ólympíuþorpinu. Hann var þá á leið á McDonald's ásamt sundkonunni Ragnheiði Ragnarsdóttur þegar tveir af bestu körfuboltamönnum heims rákust á þau.

„Við erum að labba og þá mætum við Kobe Bryant og LeBron James. Þeir voru bara: Ragga, what's up? Þetta er sönn saga. Hún fer að tala við LeBron og ég við Kobe,“ sagði Logi.

„Hann horfði á mig og spurði hvort ég væri að keppa. Hann vissi ekkert hvort ég væri keppandi. Við fórum bara að spjalla og stóðum bara á spjallinu í tuttugu mínútur. Þeir voru að læðast inn í þorpið því þeir gistu annars staðar.“

Handbolti er ekki hátt skrifaður í Bandaríkjunum og Logi þurfti að skýra út fyrir Kobe hvernig íþróttin væri.

„Ég var bara að tala við hann og útskýra fyrir honum Ísland og handbolta. Hann hélt að ég væri að keppa í að slá á móti vegg. Það er handbolti í Bandaríkjunum. Ég reyndi að útskýra fyrir honum með hreyfingum hvernig ég væri að keppa. Þetta var eftirminnilegt,“ sagði Logi.

Hlusta má á sjöunda þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×