Handbolti

Ómar Ingi markahæsti leikmaður Evrópu annað árið í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon er markahæsti leikmaður Evrópu annað árið í röð.
Ómar Ingi Magnússon er markahæsti leikmaður Evrópu annað árið í röð. Nikola Krstic/MB Media/Getty Images

Ísland á tvo fulltrúa á lista yfir tíu markahæstu handboltamenn Evrópu árið 2022. Annað árið í röð er Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Þýskalandsmeistara Magdeburg, markahæsti maður ársins, en liðsfélagi hans í íslenska landsliðinu, Bjarki Már Elísson, situr í sjötta sæti listans.

Það er handboltatölfræðisíðan Datahandball sem tók tölfræðina saman. Ómar Ingi skoraði 460 mörk á seinasta ári, 26 mörkum meira en árið áður þegar hann varð einnig markahæstur. Ómar skoraði 6,5 mörk að meðaltali í leik á seinasta ári, meira en nokkur annar á listanum yfir tíu markahæstu menn Evrópu.

Portúgalinn ungi, Francisco Costa, situr í öðru sæti listans með 359 mörk og Kamil Syprzak kemur þar á eftir með 348 stykki. Ómar skoraði því rúmlega hundrað mörkum meira en næstu menn á listanum.

Þá er hornamaðurinn Bjarki Már Elísson, leikmaður ungverska liðsins Telekom Veszprém, einnig á listanum. Bjarki skoraði 323 mörk á seinasta ári og er þar með sjötti markahæsti leikmaður Evrópu.

Þá má einnig minnast á aldursforseta listans, Hans Óttar Lindberg. Þessi danski hornamaður Füchse Berlin er orðinn 41 árs gamall, en hann skoraði 303 mörk á seinasta ári og er á góðri leið með að verða markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×