Körfubolti

Flautan á hilluna vegna sví­virðinga: „Meinaði fjöl­skyldunni að mæta á þá leiki sem ég dæmdi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson hefur ákveðið að leggja flautuna á hilluna.
Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson hefur ákveðið að leggja flautuna á hilluna. Vísir/Bára

Körfuboltadómarinn Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson hefur ákveðið að leggja flautuna á hilluna eftir að hafa starfað við dómgæslu undanfarin sjö ár. Hann segir ástæðuna vera svívirðingar, dónaskap og persónuníð sem hann hefur mátt þola á sínum dómaraferli.

Bjarni birti færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann greinir frá ákvörðun sinni. Þar segir hann að hinn 22. desember síðastliðinn hafi hann ákveðið að láta af dómgæslu.

Bjarni tekur sérstaklega fram að hann hafi ekki starfað sem dómari peninganna vegna, heldur fyrst og fremst vegna þess að hann hafi gaman að körfubolta. Þá tekur hann enn fremur fram að ástæða þess að pistill hans sé skrifaður í þátíð sé sú að gleðin sem fylgdi dómgæsl­unni hafi nær al­ger­lega horfið.

„Í tæplega 7 ár hef ég starfað sem dómari í körfubolta. Hinn 22. desember síðastliðinn ákvað ég hins vegar að láta af dómgæslu,“ ritar Bjarni.

„Í þessi 7 ár hef ég látið svívirðingar, persónuníð og dónaskap yfir mig ganga. Ég var ekki í dómgæslu peninganna vegna heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hafði gaman af körfubolta. Þetta er skrifað í þátíð þar sem sú gleði sem fylgdi dómgæslunni hefur nær algerlega horfið og þess í stað hefur komið kvíði og leiði.“

Þá bendir Bjarni einnig á að hann hafi ekki treyst sér til að leyfa fjölskyldu sinni að mæta á þá leiki sem hann dæmdi.

„Í 7 ár meinaði ég fjölskyldu minni að mæta á þá leiki sem ég dæmdi. Þetta kom til vegna þess að ég vildi ekki að börnin mín heyrðu áhorfendur öskra ítrekað að pabbi þeirra væri ýmist hálfviti, fáviti eða aumingi svo fáein orð séu nefnd. Ýmis mun verri orð hafa verið sögð sem ekki er vert að hafa eftir hér.“

Færslu Bjarna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan, en kveikjan að færslunni er grein sem birtist á Karfan.is þar sem pistlahöfundur furðar sig á því hversu auðvelt fólk á með að gera lítið úr dómurum hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×