Umræðan

Að loknum heimsfaraldri

Andrés Magnússon skrifar

Nú þegar árið 2022 er á enda komið er vert að staldra við og líta á hvernig fyrirtækin í landinu komu út úr þeirri áraun sem heimsfaraldurinn sannarlega var. Eins og margoft hefur komið fram hitti faraldurinn einstakar atvinnugreinar mjög misjafnlega fyrir. En það sem skipti þó sköpum við að leiða fyrirtækin og samfélagið allt í gegn um þetta sérstaka tímabil voru þær margháttuðu stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld innleiddu og voru flestar unnar í nánu samstarfi við hagsmunasamtök í atvinnulífinu. Ekki er neinum vafa undirorpið að þær aðgerðir breyttu miklu og má endlaust velta því fyrir sér hver staðan væri núna í hagkerfi landsins ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu gengu í gegn um erfiða tíma þar sem ferðalög lögðust að mestu af. Ýmsar aðrar atvinnugreinar nutu hins vegar mjög góðs af ástandinu af sömu ástæðu og á það ekki hvað síst við um fyrirtæki í verslun og þjónustu. Þar sem ferðalög erlendis lögðust nær af þann tíma sem heimsfaraldurinn stóð yfir, fór verulegur hluti þeirrar neyslu sem að jafnaði fer fram erlendis, til íslenskra fyrirtækja. Fyrir mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu var þetta því alls ekki slæmur tími, og hefur aldrei verið nein dul á það dregin.

Það er því ágætis tilefni til að líta yfir sviðið núna og horfa á hvernig viðskipti hafa þróast á árinu sem kveður brátt. Í því sambandi verður að líta til ársins 2019 til samanburðar þar sem árin þar á milli geta ekki talist samanburðarhæf vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem þá voru til staðar.

Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd.

Þegar kortavelta innlendra greiðslukorta innanlands, það sem af er ári 2022 (summa janúar til nóvember) er skoðuð og borin saman við sama tímabil árið 2019 kemur í ljós að kortavelta í verslun hefur aukist um 16% að raunvirði frá árinu 2019 og kortavelta í þjónustu hefur á sama tímabili aukist um 7%, að raunvirði. Nánari greining á þróun einstakra liða má sjá á meðfylgjandi mynd frá Rannsóknarsetri verslunarinnar sem sýnir hvernig breytingin hefur verið í öllum flokkum sem kortavelta rannsóknarsetursins nær til.

Við sem samfélag höfum fulla ástæðu til að horfa björtum augum fram á veginn. Allar forsendur eru til þess að það ár sem brátt gengur í garð verði okkur hagfellt, þó að glíman við verðbólguna verði enn um sinn eitt stóra viðfangsefnið. Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd. Við erum því í umtalsvert betri stöðu en flestar aðrar þjóðir að skapa hér grunn að öflugum hagvexti sem allir munu njóta góðs af. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×