Handbolti

Vandræði Bjarna og félaga halda áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde máttu þola enn eitt tapið í sænska handboltanum í kvöld.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde máttu þola enn eitt tapið í sænska handboltanum í kvöld. Skövde

Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar hans í Skövde þurftu að sætta sig við enn eitt tapið er liðið tók á móti Alingsås í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 26-30, en Skövde er nú án sigurs í 11 af seinustu 13 leikjum sínum í öllum keppnum.

Jafnræpi var með liðunum stærstan hluta fyrri hálfleiks, en gestirnir í Alingsås virtust þó alltaf skrefinu framar. Gestirnir náðu mest þriggja marka forskoti fyrir hlé og leiddu með einu marki þegar liðin gengu inn til búningsherbergja, staðan 14-15.

Gestirnir náðu svo fljótt upp fjögurra marka forskoti í upphafi síðari hálfleiks og litu aldrei um öxl eftir það. Mestur varð munurinn sjö mörk á liðunum og Alingsås vann að lokum nokkuð öruggan fjögurra marka sigur, 26-30.

Bjarni og félagar höfðu betur gegn Onnereds í seinustu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar, en fyrir það hafði liðið ekki unnið leik í öllum keppnum síðan 24. október. Liðið hefur nú tapað átta af seinustu 13 leikjum sínum og unnið aðeins tvo þeirra.

Skövde situr nú í sjöunda sæti sænsku deildarinnar með 15 stig eftir 16 leiki, fjórum stigum minna en Alingsås sem situr í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×