Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá kort yfir leiðakerfi Icelandair en fjarlægustu áfangastaðirnir eru á vesturströnd Ameríku. Til austurs hefur Róm verið sá staður sem lengst er í burtu en núna er að bætast við mun fjarlægari áfangastaður, Tel Aviv í Ísrael.
Sá sem stýrir leiðakerfi Icelandair, Tómas Ingason, segir Ísrael einn stærsta markað Icelandair af þeim sem ekki er þjónað með beinu flugi. Ísraelsmenn séu mjög spenntir fyrir Íslandi.
„Þeir eru að koma til Íslands í hrönnum og við bara búumst við því að það verði enn betur tekið í það þegar það er komið beint flug,“ segir Tómas.

Spurður hvort hann telji að Íslendingar verði jafn áhugasamir um að skoða Ísrael segist hann persónulega vera mjög spenntur fyrir því en hann hafi þó sjálfur aldrei komið þangað.
„Ég held að þetta sé mjög spennandi áfangastaður sem hefur upp á margt að bjóða.“
Og nefnir baðstrendur Miðjarðarhafsins en einnig listir og söfn og hina miklu sögu og menningu svæðisins. Þar eru Jerúsalem, Betlehem og Nasaret. Einnig Dauðahafið og áin Jórdan og stutt er til Jórdaníu.
Ísraelsmenn eru þekktir fyrir hertar öryggisreglur í kringum flug og það mun einnig gilda um flug Icelandair.
„Þær í raun felast bara í aukinni öryggisleit. Það fylgir í raun bara reglum á flugvöllum í Ísrael og við munum bara fylgja þeim.“

Flogið verður yfir sumarmánuði, frá 10. maí og út október, þrisvar í viku. Flugtíminn frá Íslandi til Tel Aviv er um sjö klukkustundir.
Lykillinn að þessum nýja áfangastað er þó Boeing Max-þotan, sem Tómas segir hafa farið fram úr björtustu vonum, bæði hvað varðar drægni og eldsneytisneyslu.
„Það er auðveldara að opna nýja markaði á Maxinum sem sýpur ekki eins mikið og er líka aðeins minni vél heldur en sjöfimman. Þannig að það hjálpar okkur klárlega að skoða minni markaði og opna þá,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðakerfis Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: