Handbolti

Harð­orður Einar um stöðu mála á Akur­eyri: „Finnst þetta allt­ of langt fall niður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einar Jónsson lét í sér heyra í jólaþætti Seinni bylgjunnar.
Einar Jónsson lét í sér heyra í jólaþætti Seinni bylgjunnar. Vísir/Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram í Olís deild karla, var ekki í jólaskapi í jólaþætti Seinni bylgjunnar er hann ræddi stöðu mála hjá KA/Þór í Olís deild kvenna. Liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 2021 ásamt því að verða bikarmeistari sama ár en er nú í fallbaráttu.

„Það er svo erfitt að fá fólk norður, það er svo erfitt að fá fólk til Eyja,“ sagði Einar áður en Svava Kristín Grétarsdóttir, Eyjakona og þáttastjórnandi, greip inn í og sagði að það væri nú ekki erfitt að fá fólk til Eyja: 

„Við erum með endalaust af landsliðsmönnum í Eyjum.“

„Það er ekki eins og það sé erfitt, reddaðu þessu bara. Þetta er ekkert erfitt, bara því þú ert búinn að ákveða að þetta er erfitt. Vertu bara með alvöru umgjörð, alvöru lið, hafðu þetta bara í lagi. Eins og þeir voru búnir að gera fyrir þetta, byggja rosalega flott upp. Ekki láta hrunið vera svona mikið, það er það sem fer í taugarnar á mér.“

„ÍBV er búið að vera rock solid karla- og kvenna megin í tíu ár. Fyrir það voru þau sígrenjandi yfir því að það nennti engin/n að koma til Eyja og bla bla bla. Þau breyttu bara hugarfarinu hjá sjálfum sér, ekki hjá öðrum. Sneru þessu við. Spurðu sig hvað þau þyrftu að gera því það hlyti að vera eitthvað að, eða whatever. Nú er ég bara að geta mér til. Það hlýtur að vera þannig.“

„Það er ekkert erfitt að fara til Akureyrar, hvað er svona erfitt við að fara til Akureyrar? Getur þú ekki búið á Akureyri eða? Borgaðu bara alvöru monní, rektu þetta vel og hafðu þetta í lagi. Bæði karla- og kvenna megin, ekki karla megin núna en settu áherslu á kvennaliðið. Vertu með alvöru lið þar. Mér finnst þetta alltof langt fall niður.“

Klippa: Harð­orður Einar um stöðu mála hjá KA/Þór: Finnst þetta allt­of langt fall niður



Fleiri fréttir

Sjá meira


×