Handbolti

„Ég vona að ég sé ekki jinxa neitt fyrir næsta leik“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hafdís Renötudóttir fagnar einu af þremur vítaköstum sem hún varði í leiknum.
Hafdís Renötudóttir fagnar einu af þremur vítaköstum sem hún varði í leiknum. Vísir/Hulda Margrét

Hafdís Renötudóttir átti mjög góðan leik í markinu þegar Framkonur urðu fyrstar til að taka stig af Valsliðinu í Olís deild kvenna í vetur. Hún vildi samt meira út úr leiknum.

Svava Kristín Gretarsdóttir og sérfræðingar hennar ræddu við Hafdísi í Seinni bylgjunni eftir leikinn.

„Maður leiksins er að okkar mati Hafdís. Frábær leikur hjá þér en eftir á að hyggja ótrúlega svekkjandi hvernig fór að lokum,“ sagði Svava Kristín.

„Já algjörlega. Ég fer ekki sátt heim með þetta eina stig. Ég er ógeðslega svekkt yfir þessu,“ sagði Hafdís Renötudóttir.

Hafdís var eiginlega búin að loka á Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur í vítunum í leiknum en Þórey Anna náði að skora úr vítinu í blálokin og tryggja Valskonum stigið.

„Ég hélt hún ætlaði að plata mig og taka í sama horn og hún tók í hundrað skipti í fyrri hálfleiknum,“ sagði Hafdís.

„Við töluðum um það í settinu fyrir þennan leik að þú værir bara að fara að eiga góðan leik því það er eitthvað þegar þú mætir Val. Þú ert eins og nautin og sérð bara rautt og ferð í einhvern ham,“ sagði Svava Kristín.

Klippa: Seinni bylgjan ræddi við Hafdísi: Ég spila líka vanalega vel í öðrum leikjum ekki bara á móti Val

„Ég spila líka vanalega vel í öðrum leikjum ekki bara á móti Val annars er ég heilt yfir sátt með mína frammistöðu í dag,“ sagði Hafdís.

Framarar eru Íslandsmeistarar en það hefur gengið brösuglega í byrjun tímabilsins.

Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni vildi fá að vita stöðuna á Framliðinu og hvort þær væru að finna taktinn.

„Við erum búnar að æfa vel og spila með það sem við höfum. Við erum með gríðarlega breytt lið og þurfum að æfa okkur til að geta spilað saman sem lið,“ sagði Hafdís.

„Við áttum að taka tvö stig í dag og bara lélegt hjá okkur að taka bara eitt stig. Ég er sátt með stelpurnar en ekki með úrslitin. Mér finnst vera stígandi í liðinu og við erum búnar að vera nálægt stigunum í hinum leikjunum,“ sagði Hafdís.

„Thea [Imani Sturludóttir] raðar inn mörkum í öllum leikjum í vetur og ef við horfum á úrslitakeppnina í fyrra líka. Þú rúllar henni upp leik eftir leik. Er þetta andlegt eða hvað,“ spurði Einar Jónsson, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Ég er vanalega með hana í þessum leikjum eins og á þessu tímabili og því síðasta. Sérstaklega í úrslitakeppninni. Ég held að þetta sé bara andlegt. Ég vona að ég sé ekki jinxa neitt fyrir næsta leik en ég held að þetta sé svolítið það,“ sagði Hafdís.

Thea var aðeins með tvö mörk úr níu skotum í leiknum.

„Þetta er algjörlega ég að gera mína heimavinnu. Ég vinn gríðarlega mikið fyrir hvern einasta leik. Ég algjörlega vinn mína heimavinnu og þannig er ég að vinna hana í þessum leikjum,“ sagði Hafdís.

Það má horfa á allt viðtalið hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.