Handbolti

Guðmundur Bragi með tæp tíu mörk að meðaltali í leik eftir þjálfaraskiptin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Bragi Ástþórsson hefur skorað 39 mörk í fjórum leikjum eftir þjálfaraskiptin hjá Haukum.
Guðmundur Bragi Ástþórsson hefur skorað 39 mörk í fjórum leikjum eftir þjálfaraskiptin hjá Haukum. vísir/diego

Haukamaðurinn Guðmundur Bragi Ástþórsson hefur verið rjúkandi heitur að undanförnu. Hann er með tæp tíu mörk að meðaltali í leik eftir að Haukar skiptu um þjálfara í síðasta mánuði.

Guðmundur Bragi skoraði fjórtán mörk úr fimmtán skotum þegar Haukar sigruðu Hörð, 37-43, á Ísafirði á laugardaginn. Hann gaf einnig ellefu stoðsendingar og kom því með beinum hætti að 25 mörkum í leiknum.

Þetta var þriðji sigur Hauka síðan Ásgeir Örn Hallgrímsson tók við liðinu af Rúnari Sigtryggssyni fyrir um mánuði síðan.

Haukar töpuðu fyrsta leiknum undir stjórn Ásgeirs, 32-34 fyrir Val, en þá var Guðmundur Bragi meiddur. Í síðustu fjórum leikjum Hauka hefur hann hins vegar farið hamförum og skorað samtals 39 mörk, eða 9,73 mörk að meðaltali í leik.

Guðmundur Bragi skoraði fjórtán mörk gegn Herði, níu mörk gegn ÍR, ellefu mörk gegn Gróttu og fimm mörk gegn ÍBV. Haukar unnu Harðverja, ÍR-inga og Eyjamenn en töpuðu fyrir Seltirningum.

Ekki var hægt að kvarta mikið yfir frammistöðu Guðmundar Braga meðan Rúnar var við stjórnvölinn hjá Haukum. Í sjö deildarleikjum undir stjórn Rúnars skoraði Guðmundur Bragi 43 mörk, eða 6,14 mörk að meðaltali leik. En hann er með rúmlega þremur mörkum meira að meðaltali í leik eftir að Ásgeir tók við. Skotnýtingin er líka mun betri; 73,6 prósent gegn 57,3 prósentum.

Guðmundur Bragi hefur alls skorað 82 mörk í Olís-deildinni og er markahæstur í liði Hauka. Hafnfirðingar eru í 7. sæti deildarinnar með ellefu stig eftir tólf leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×