Umfjöllun og viðtöl: KA - Grótta 33-33 | Stál í stál á Akureyri

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Gróttan sótti eitt stig norður.
Gróttan sótti eitt stig norður.

KA og Grótta skildu jöfn 33-33 eftir hörku leik í KA heimilinu í dag, fyrir leikinn voru liðin í 9. og 10. sæti Olís deildar karla og baráttan um stigin tvö voru því hörð. 

Það var hátt tempó í leiknum, mikið af tæknifeilum á báða bóga sem bauð upp á kaflaskiptan leik en bæði lið áttu sína góðu og slæmu kafla.

KA menn hófu leikinn betur og voru með frumkvæðið lengst af hálfleiknum. Þeir náðu tvívegis þriggja marka forystu annars vegar 8-5 og síðan 10-7 um miðbik hálfleiksins. 

Þegar fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum náðu gestirnir þriggja marka forystu 11-14. Heimamenn náðu að saxa á það forskot og þegar mínúta lifði leiks var staðan 14-14, bæði lið fengu sitt tækifærið til að bæta við en fóru illa að ráði sínu. Gestirnir fengu lokasókn þegar 7 sekúndur voru eftir af hálfleiknum sem var vel útfærð í leikhléi. Lúðvík Arnkelsson sá um að skora síðasta mark hálfleiksins og það voru því gestirnir sem fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn, 14-15.

Seinni hálfleikur einkenndist af lítilli markvörslu og varnarleik og því bæði lið að raða inn mörkum. Birgir Steinn Jónsson og Einar Rafn Eiðsson settu upp sýningu hvor í sínu liði. Gestirnir héldu KA mönnum einum til tveimur mörkum frá sér lengst af hálfleiksins og það var ekki fyrr en 8 mínútur voru eftir af leiknum að KA menn náðu að komast yfir, 30-29. 

Heimamenn virtust vera að sigla sigrinum heim en þeir voru tveimur mörkum yfir þegar 25 sekúndur voru eftir af leiknum. Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu tók þá leikhlé sem skilaði sér í marki frá Theis Koch Søndergård. Grótta fór í maður á mann en KA náði að spila sig í gegnum það og Patrekur Stefánsson fékk tækifæri til að loka leiknum en náði ekki að skora. Gestirnir geysust upp í sókn og náðu skoti af línunni áður en leiktíminn var úti. Nicholas Satchwell varði skotið en dómarnir dæmdu víti. Birgir Steinn Jónsson skoraði úr vítinu, sláin, niður, inn. Lokatölur 33-33 á Akureyri.

Afhverju jafntefli?

Hvorugu liðinu tókst að halda í þá forystu sem það skapaði sér og hleypti alltaf andstæðningnum aftur inni í leikinn. KA fór illa að ráði sínu í lokin þegar þeir voru með tveggja marka forystu og 25 sekúndur eftir en fá á sig tvö mörk í lokin. Jafntefli sanngjörn niðurstaða en bæði lið vildu meira. 

Hverjar stóðu upp úr?

Einar Rafn Eiðsson var ótrúlegur í liði KA eða eins og Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu sagði að það væri eins og Jordan hafði verið mættur á völlinn. Einar skoraði 17 mörk úr 20 skotum og skapaði sex tækifæri fyrir liðsfélagana. Þar á eftir kom Gauti Gunnarsson með 5 mörk. 

Birgir Steinn Jónsson var frábær í liði Gróttu og skoraði 10 mörk úr 13 skotum og skapaði 8 færi fyrir félagana, þá skoraði hann úr vítinu mikilvæga í lokin. Lúðvík Arnkelsson átti góða innkomu bæði í vörn og sókn en hann skoraði 6 mörk. 

Hvað gekk illa?

Leikurinn var kaflaskiptur, bæði lið voru á einhverjum tímapunkti í forystu í leiknum en gekk báðum illa að halda í þá forystu og mögulega drepa aðeins leikinn niður. Hátt tempó orsakaði marga tapaða bolta og tæknifeila á báða bóga, jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða. 

Hvað gerist næst?

KA spilar annan heimaleik um næstu helgi, laugardaginn 10. desember þegar þeir fá Hauka í heimsókn. Grótta heimsækir ÍR mánudagskvöldið 12. desember. 

Róbert Gunnarsson: Eins og Jordan væri mættur á völlinn

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, ásamt nýjasta liðsstyrknum, Elvari Otra Hjálmarssyni.Grótta

„Það eru blendnar tilfinningar í gangi eftir þennan leik. Ég er gríðarlega ánægður að ná að stela stigi í lokin. Það sýndi bara mikinn karakter og mikla baráttu í mínu liði,“ sagði Róbert Gunnarsson þjálfari Gróttu eftir 33-33 jafntefli á móti KA í KA heimilinu í kvöld. 

„Það er frábært að þeir hafi ekki gefist upp en að sama skapi hefði ég viljað vinna leikinn. Mér fannst við vera með alveg fín tök á leiknum framan af. Ég hefði viljað bæði stigin en úr því sem komið var síðustu fimm mínúturnar að þá þakka ég fyrir þetta stig.“

Einar Rafn Eiðsson leikmaður KA skoraði 17 mörk úr 20 skotum í kvöld. 

„Einar Rafn Eiðsson átti náttúrulega stórkostlegan leik. Við prófuðum þrjár varnir á hann og ekkert virkaði, þetta var bara stöngin inn, skeytin inn og svoleiðis þannig stórkostlegur leikur hjá honum. Ég held ég sé ekki að halla á neinn þegar ég segi að hann hafi gert útslagið.“

Grótta fór í þrjú mismunandi varnarafbrigði í kvöld en það gekk ekki eins og skildi. 

„Við fórum í 5-1 vörnina og mér fannst hún alveg halda en svo eru þeir að skora mörk með klafsi í lokinn, sem er smá óheppni fyrir okkur. Svo fórum við að plúsa Einar það gekk ekki, við reyndum að taka hann úr umferð og það gekk ekki þannig að þetta var einn af þessum dögum. Það var einn gamall liðsfélagi minn Sverre Jakobsson sem sagði að það var eins og Jordan væri mættur á völlinn og það er bara svoleiðis. Ég get eiginlega ekki verið fúll yfir þessu, þetta var svo flott hjá honum.“

Grótta skoraði tvö mörk á síðustu 25 sekúndum leiksins.  

„Það er alveg stórkostlegt og rosalega gaman að við höfum náð að jafna leikinn. Við gefumst náttúrulega aldrei upp, ég er held sé ég búin að segja þetta í öllum viðtölum að þetta eru æðislegir strákar og það er frábært að fá að þjálfa þá.“

Róbert hefði verið til í tvö stig en virti stigið. 

„Það er klárlega betra að fá eitt stig en ekki neitt, þetta er á endanum bara stigasöfnun og við verðum að sjá hvernig þetta verður í lokin. Við förum náttúrulega í alla leiki til að vinna þá. Það er hellingur eftir og það býr rosa mikið í þessu liði þannig þetta er krefjandi en jafnframt skemmtilegt verkefni.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.