Viðskipti innlent

Arion banki telur fullreynt að reka kísilver í Helguvík

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Arion banki eignaðist kísilverksmiðjuna árið 2018 í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Sílicon hf. 
Arion banki eignaðist kísilverksmiðjuna árið 2018 í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Sílicon hf.  Vísir/Þorgils

Arion banki og PCC hafa slitið formlegum viðræðum um möguleg kaup PCC á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Samhliða hefur Arion banki sagt upp raforkusamningi við Landsvirkjun þar sem framleiðsla kísils var forsenda samningsins. Því er allt útlit fyrir að kísilverksmiðjan í Helguvík verði ekki gangsett á ný og að hún verði flutt eða henni fært nýtt hlutverk.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arion banka. 

Arion banki eignaðist kísilverksmiðjuna árið 2018 í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Sílicon hf. Síðan þá hefur dótturfélag bankans, Stakksberg ehf., unnið endurbótaáætlun fyrir verksmiðjuna og leitað að hæfum kaupendum sem gætu rekið verksmiðjuna með ábyrgum hætti. Að höfðu samráði við viðeigandi stjórnvöld var nýju umhverfismati, sem byggðist á endurbótaáætluninni, lokið og sýndu fjárfestar verksmiðjunni umtalsverðan áhuga. Arion banki gerði þá kröfu að mögulegir kaupendur væru traustir aðilar sem byggju yfir yfirgripsmikilli reynslu af rekstri kísilvera.

Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi viðræðum

Í upphafi þessa árs gekk bankinn til einkaviðræðna við PCC sem hefur starfrækt kísilverksmiðju á Bakka í góðri sátt við nærsamfélagið. Það var mat bankans að PCC byggi yfir nauðsynlegri þekkingu og reynslu til að starfrækja verksmiðjuna í Helguvík með farsælum hætti. Voru fulltrúar PCC og Arion banka sammála um að forsenda þess að farið yrði af stað aftur með kísilframleiðslu í Helguvík væri að slíkt yrði gert í góðri sátt við yfirvöld og íbúa Reykjanesbæjar. 

PCC hefur undanfarið kynnt metnaðarfull áform sín fyrir ýmsum hagaðilum og er niðurstaða þeirrar vinnu að félagið telur ekki grundvöll fyrir áframhaldandi viðræðum um kaup PCC á kísilverksmiðjunni.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu mun Arion banki horfa til sölu á þeim innviðum sem eru til staðar í Helguvík, annað hvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu. Viðræður eru þegar í gangi við nokkra aðila, innlenda og erlenda, í þessu sambandi. Ákvörðunin hefur ekki áhrif á bókfært verðmat eignarinnar, en verðmat verður endurmetið með hliðsjón af þróun þessara viðræðna.

„Saga kísilversins í Helguvík er vel þekkt. Við höfum litið á það sem skyldu okkar að reyna til þrautar að nýta þá innviði og þau verðmæti sem þarna hefur verið fjárfest í. Þar höfum við horft til allra hagaðila, ekki síst íbúa Reykjanesbæjar sem urðu fyrir óþægindum á þeim stutta tíma sem verksmiðjan var starfrækt,“ segir Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka.

Benedikt segir að unnin hafi verið metnaðarfulla endurbótaáætlun á verksmiðjunni sem fór í gegnum umhverfismat og leitað hafi verið að rekstraraðila með nauðsynlega þekkingu og getu til að starfrækja verksmiðjuna á umhverfisvænan máta, í sátt við samfélagið.

„Bankinn telur fullreynt að þarna verði rekin kísilverksmiðja og því tekur við nýr kafli sem miðar að því að flytja verksmiðjuna eða færa henni nýtt hlutverk.“


Tengdar fréttir

Rekstrartap hjá kísilverinu á Bakka samhliða lækkandi verði á kísilmálmi

Eftir að hafa verið réttum megin við núllið frá lokum síðasta árs varð tap á rekstrinum hjá kísilveri PCC á Bakka á Húsavík á liðnum þriðja ársfjórðungi. Rekstrarumhverfið hefur versnað með lækkandi verði á kísilmálmi samtímis því að hráefniskostnaður hefur hækkað mikið.

Gestur tekur við af Rúnari hjá PCC BakkiSilicon

Gestur Pétursson, fyrrverandi forstjóri Veitna og Elkem, hefur verið ráðinn nýr forstjóri PCC BakkiSilicon. Hann tekur við starfinu af Rúnari Sigurpálssyni sem mun halda áfram störfum fyrir PCC samstæðuna og einbeita sér að þróunarverkefnum á Íslandi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×