Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 en Hafrannsóknastofnun mun leggja til bæði skip sín, Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson, og útgerðin eitt skip. Áætlað er að tíu dagar leiðangur kosti um 35 milljónir króna.

„Það er sem sagt útgerðin sem stendur straum af kostnaði við hann. Þeir leigja af okkur bæði skipin og svo jafnframt verður skip frá þeim sem tekur þátt í leitinni og mælingunum,“ segir Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.
Á sama tíma í fyrra hafði Hafrannsóknastofnun mælt með 400 þúsund tonna loðnukvóta. Í ár er talan helmingi lægri, rúm 200 þúsund tonn, nema það finnist eitthvað meira.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir væntingar hafa staðið til að vertíðin í ár yrði jafnvel stærri en sú síðasta. Það hafi því verið vonbrigði að ekki hefði tekist að staðfesta hærri tölur í síðustu loðnumælingu.

„Það er náttúrlega tvennt sem við erum að vonast eftir að fá með þessum leiðangri. Annarsvegar að fá góða mynd af útbreiðslunni, hversu austarlega hún er komin, og geta þá skipulagt leiðangra eftir jól í samræmi við það. Og eins líka þá að útgerðin geti skipulagt veiðar sínar á loðnustofninum.
Hins vegar er markmiðið að ná líka mælingu. Af því að það er mikið misræmi milli haustmælinganna, sem sagt í hitteðfyrra, 2021, og núna 2022,“ segir Guðmundur Óskarsson.

Kostnaður við loðnuleitina er smáaurar miðað við hvað aukinn loðnukvóti gæti skilað miklum verðmætum. Ef kvótinn hækkaði upp í samræmi við væntingar gætu það verið tölur á bilinu 15 til 20 milljarðar króna.
Og hvenær á svo að leggja í hann?
„Það verður lagt af stað sennilega á mánudaginn,“ segir sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fjallað var um sögu loðnuveiða og þýðingu þeirra í þættinum Um land allt á Stöð 2 í fyrra. Hér má sjá kafla úr þættinum: