Handbolti

Sjáðu Óðin tryggja Kadetten sigurinn með seinasta kasti leiksins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson reyndist hetja Kadetten í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson reyndist hetja Kadetten í kvöld. Kadetten

Óðinn Þór Ríkharðsson reyndist hetja svissneska liðsins Kadetten Schaffhausen er liðið vann dramatískan eins marks sigur gegn Benfica í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur 26-25, en Óðinn tryggði liðinu sigurinn þegar leiktíminn var runninn út.

Óðinn hefur farið á kostum í undanförnum leikjum fyrir Kadetten þar sem leikmaðurinn hefur skorað nánast að vild í svissnesku úrvalsdeildinni undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar.

Hann hefur því oft verið í stærra hlutverki en í leik kvöldsins þar sem Óðinn skoraði aðeins þrjú mörk úr fimm skotum. Hann skoraði þó mikilvægasta mark leiksins.

Eftir jafnan fyrri hálfleik leiddu heimamenn í Kadetten með einu marki, 13-12. Liðið byrjaði síðari hálfleikinn svo af miklum krafti og náði mest fimm marka forystu í stöðunni 21-16. Gestirnir skoruðu þá sex af næstu sjö mörkum leiksins og jöfnuðu metin.

Það sem eftir lifði leiks skiptust liðin á að skora og staðan var jöfn, 25-25, þegar heimamenn í Kadetten héldu í seinustu sókn leiksins. Liðinu tókst að sækja vítakast og Óðinn Þór steig á punktinn þegar leiktíminn var runninn út.

Óðinn var ískaldur á punktinum og setti boltann örugglega framhjá Sergey Hernandez Ferrer í marki Benfica og tryggði svissneska liðinu um leið dramatískan eins marks sigur, 26-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×