Gracia Axelsson var að spila með liði sínu Kärra HF á móti Skånela en leikurinn fór fram á heimavelli Skånela í úthverfi Stokkhólms.
Það á ekki að vera hægt að skora mark með fótunum í handbolta en Axelsson tókst það engu að síður í umræddum leik.
Leikmaður Skånela fór þá inn úr hægra horninu en Gracia gerði vel í að loka á hana og varði boltann með því að sparka út hægri fætinum.
Það vildi þannig til að hún sparkaði boltanum út úr teignum og upp völlinn. Útileikmenn Skånela misstu þar af honum og hann skoppaði alla leið yfir í markið hinum megin á vellinum.
Ótrúlegt mark og ekkert skrýtið að þau á Radiosporten tali um mark ársins. Það má sjá þetta sérstaka mark Graciu Axelsson hér fyrir neðan.