Handbolti

Grátlegt tap Viktors og félaga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í Nantes máttu þola grátlegt tap í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í Nantes máttu þola grátlegt tap í kvöld. Getty/Nikola Krstic

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar hans í Nantes máttu þola grátlegt tap er liðið heimsótti Toulouse í frönsku úrvalsdeildinn í handbolta í kvöld, 32-31.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn jafn og spennandi frá upphafi til enda. Gestirnir í Nantes leiddu fyrri hluta fyrri hálfleiks og náðu mest þriggja marka forskoti, en heimamenn jöfnuðu metin fyrir hlé og staðan var 18-18 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Leikurinn bauð upp á sömu spennu í síðari hálfleik, en nú voru það heimamenn sem voru skrefi framar. Liðsmenn Toulouse náðu þó aldrei meira en tveggja marka forystu, en þegar tæp mínúta var eftir af leiknum var allt jafnt, 31-31. Það voru þó heimamenn sem skoruðu seinasta mark leiksins og Viktor og félagar þurftu því að sætta sig við grátlegt eins marks tap, 32-31.

Viktor og félagar sitja enn á toppi deildarinnar með 18 stig eftir 11 leiki, jafn mörg og PSG sem situr í öðru sæti. Parísarliðið á þó leik til góða og getur hrifsað toppsætið til sín með því að taka í það minnsta eitt stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×