Handbolti

„Jovan Kukobat skuldaði frammistöðu eftir síðasta leik“

Andri Már Eggertsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Diego

Afturelding vann sannfærandi sjö marka sigur á Selfyssingum í 10. umferð Olís deildarinnar 38-31. Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var ánægður með hvernig hans lið svaraði jafnteflinu í síðustu umferð. 

„Þetta var frábær liðssigur fyrir utan einhverjar tíu mínútur í fyrri hálfleik þar sem við misstum einbeitinguna. Eftir það fannst mér frammistaðan frábær og það stigu margir upp. Við vorum óánægðir með frammistöðuna í síðasta leik og við vildum svara fyrir það strax sem við gerðum,“ sagði Gunnar Magnússon eftir leik. 

Í stöðunni 13-13 tók Gunnar Magnússon leikhlé og eftir það gerði Afturelding sex mörk í röð og kláraði leikinn. 

„Ég tók leikhlé þar sem við vorum sjálfum okkur verstir á þessum tímapunkti. Ég vildi fá menn til að einbeita sér og fara aftur í leikplanið. Það var engin töfralausn í þessu leikhléi heldur fórum við aftur í okkur og vorum að fylgja okkar plani.“

Afturelding var fjórum mörkum yfir í hálfleik og Gunnar var ánægður með hvernig hans lið spilaði í seinni hálfleik. 

„Ég var ánægður með hvernig við komum inn í seinni hálfleik og byrjuðum af krafti fyrstu 10-15 mínúturnar og lokuðum leiknum. Jovan Kukobat skuldaði okkur frammistöðu eftir síðasta leik og hann kvittaði fyrir það í kvöld,“ sagði Gunnar Magnússon að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.