Handbolti

Kross 10. umferðar: Eyjamenn þurfa meiri Walter, minni Smokey

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Þú ert að stíga inn í veröld sársaukans.“
„Þú ert að stíga inn í veröld sársaukans.“ vísir/diego

Tíundu umferð Olís-deildar karla í handbolta lauk í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir slæman? Hverjir þurfa að hafa áhyggjur og hvað sagði tölfræðin? Vísir fer yfir umferðina á léttum og gagnrýnum nótum.

Haukar komust upp úr fallsæti eftir tíu marka sigur á ÍBV, KA varð fyrsta liðið til að vinna Fram í Úlfarsárdalnum, Hörður náði í sitt fyrsta stig í efstu deild þegar liðið gerði jafntefli við Gróttu á Seltjarnarnesinu, Afturelding komst aftur á sigurbraut þegar liðið rústaði Selfossi, Valur hitaði upp fyrir stórleikinn gegn Flensburg með sigri á Stjörnunni og FH vann sinn sjöunda sigur í röð þegar nýliðar ÍR komu í heimsókn.

Umfjöllun og viðtöl úr 10. umferð Olís-deildar karla

Valur 35-29 Stjarnan

Fram 30-31 KA

Haukar 38-28 ÍBV

Grótta 27-27 Hörður

Afturelding 38-31 Selfoss

FH 33-30 ÍR

Góð umferð fyrir ...

Valsmennirnir hans Snorra Steins Guðjónssonar eru með fjögurra stiga forskot á toppi Olís-deildarinnar.vísir/diego

Snorra Stein Guðjónsson

Valsmönnum hefði alveg verið fyrirgefið ef þeir hefðu ekki unnið gegn Stjörnumönnum á föstudaginn, nokkrum dögum fyrir leikinn risastóra gegn Flensburg. Og í hálfleik benti margt til þess, enda Stjarnan með þriggja marka forskot. Snorri byrjaði seinni hálfleik með óhefðbundna sóknaruppstillingu og eftir um tíu mínútur fór hann alla leið í flippinu. Aron Dagur Pálsson, Benedikt Gunnar Óskarsson, Arnór Snær Óskarsson, Agnar Smári Jónsson, Bergur Elí Rúnarsson og Tjörvi Týr Gíslason mynduðu sóknaruppstillinguna en helmingur leikmannanna var ekki í sinni stöðu. Benedikt var skytta, Arnór á miðjunni og Aron Dagur í vinstra horninu. En þetta svínvirkaði, Valsmenn náðu heljartaki á leiknum og unnu öruggan sigur. Það virðist sama hvað Snorri gerir þessa dagana, það virkar allt.

Bruno Bernat

Ekkert var hægt að kvarta yfir frammistöðu Nicholas Satchwell í fyrri hálfleiknum gegn Fram enda varði hann ellefu skot, eða 44 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Það var samt bara lognið á undan storminum eins og Akureyringarnir í Skyttunum sögðu. Jónatan Magnússon, þjálfari KA, setti Bruno Bernat í markið og hann þakkaði heldur betur traustið. Bruno átti sinn besta hálfleik á ferlinum og kannski besta hálfleik markvarðar á tímabilinu. Hann varði hvorki fleiri né færri en átján skot, eða 53 prósent skotanna sem hann fékk á sig. KA-menn glutruðu niður góðu forskoti en sluppu með skrekkinn og unnu sigur sem þeir áttu fullkomlega skilið. Ýmislegt hefur vantað upp á hjá KA í vetur en markvarslan hefur ekki verið eitt af því. Raunar eru Akureyringar með bestu hlutfallsmarkvörsluna í deildinni, eða 35 prósent.

Ásgeir Örn Hallgrímsson

Haukar sýndu mikil batamerki í fyrsta leiknum undir stjórn Ásgeirs Arnar Hallgrímssonar, í tveggja marka tapi fyrir Val. Þeir bættu um betur þegar ÍBV kom í heimsókn og léku sinn besta leik á tímabilinu. Haukar voru miklu sterkari aðilinn og gáfu ekkert eftir þrátt fyrir að missa bæði Heimi Óla Heimisson og Stefán Rafn Sigurmannsson af velli með rauð spjöld. Markvarslan hjá Haukum var eins og svo oft áður í vetur ekkert spes en allt annað var í lagi. Hafnfirðingar voru til að mynda með 75 prósent skotnýtingu, skoruðu að vild og unnu á endanum tíu marka sigur, 38-28. Haukar eru komnir upp úr fallsæti og leiðin virðist bara vera upp á við. Þjálfaraskiptin voru hentug fyrir alla aðila því Leipzig hefur unnið alla þrjá leiki sína eftir að Rúnar Sigtryggsson tók við liðinu.

Slæm umferð fyrir ...

Rauða spjaldið fór þrisvar á loft í leik Hauka og ÍBV.vísir/diego

Petar Jokanovic

Eins og svo oft áður hjá Haukum og Eyjamönnum var mikill hiti í leik liðanna á laugardaginn. Heimir Óli var rekinn af velli eftir tólf mínútur og svo fóru tvö rauð spjöld á loft á 41. mínútu. Stefán Rafn Sigurmannsson skaut þá að marki ÍBV eftir að búið var að flauta. Petar brást ókvæða við og leikar æstust töluvert. Bosníski markvörðurinn tók síðan þá bjánalegu ákvörðun að ýta í bak Guðmundar Braga Ástþórssonar. Fyrir það fékk hann beint rautt spjald. Eyjamenn voru „bara“ fimm mörkum undir á þessum tíma, 22-17, og möguleikinn á endurkomu enn til staðar. Ekkert varð til hins vegar úr henni, jafnvel þótt Stefán Rafn hafi fengið sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald. Petar var svo sem ekki merkilegur meðan hans naut við (sex varin, 25 prósent) en hinn ungi Jóhannes Esra Ingólfsson átti enn erfiðar uppdráttar og varði aðeins eitt af þeim tuttugu skotum sem hann fékk á sig. 

Selfoss

Ekki er langt síðan Selfyssingar voru býsna lukkulegir eftir þrjá sigra í röð. Þeir eru ekki jafn upplitsdjarfir núna. Það var engin skömm að því að tapa fyrir Val, en tapið gegn Stjörnunni á heimavelli var mjög ljótt og Selfoss átti svo ekki mikla möguleika gegn Aftureldingu á Varmá í fyrradag. Selfyssingar hafa tapað þremur leikjum í röð með samtals 25 marka mun. Vörn þeirra vínrauðu hefur verið sérstaklega veik í þessum leikjum en þeir hafa fengið á sig 38 mörk í tveimur þeirra og 35 í þeim þriðja. Á Varmá var gjörsamlega allt inni en þeir Vilius Rasimas og Jón Þórarinn Þorsteinsson vörðu aðeins samtals fimm skot fyrir aftan holótta vörn Selfyssinga sem var engin fyrirstaða fyrir Mosfellinga. Leikmenn Selfoss þurfa að snúa genginu við fyrr en seinna enda alls ekkert öruggir með að komast í úrslitakeppnina.

Rétthenta leikmenn Fram

Eftir tapið fyrir KA lét Einar Jónsson, þjálfari Fram, sína menn heyra það fyrir slæma færanýtingu. Það var alveg tilefni til enda var skotnýting Frammara gegn KA-mönnum aðeins fimmtíu prósent. Örvhentu leikmenn Fram gátu ágætlega við sína frammistöðu unað enda skoruðu þeir samtals fimmtán mörk og voru með sextíu prósent skotnýtingu. Það var hátíð miðað við rétthentu leikmennina í hópi Fram sem þurftu 35 skot til að skora sín fimmtán mörk (43 prósent). Ólafur Brim Stefánsson var til að mynda með tvö mörk í sjö skotum og Marko Coric heldur áfram að taka Barbasinskiy skot í dauðafærum á línunni.

Fokk, við þurfum að hafa áhyggjur

Eyjamenn eru ekki með sömu afstöðu til deildarkeppninnar og prinsippmaðurinn Walter í kvikmyndinni The Big Lebowski. Hann tók deildarkeppnina alvarlega og var ekki tilbúinn að horfa framhjá því þegar hinn síðhærði Smokey steig út fyrir þegar hann kastaði keilukúlu sinni og dró upp byssu til að fá hann til að merkja kastið ógilt. Kannski ofsafengin viðbrögð en þetta er virðing fyrir deildarkeppni sem ÍBV virðist ekki alltaf hafa. Eyjamenn töpuðu með tíu mörkum á Ásvöllum á laugardaginn og hafa tapað þremur af síðustu leikjum sínum og unnið einn ósannfærandi sigur á Harðarmönnum. Oft er talað um að Eyjamenn séu ekki deildarkeppnislið en eins og sýnt var fram á í Seinni bylgjunni hafa þeir jafnan fylgt eftir sínum besta árangri í deildarkeppni með sínum besta árangri í úrslitakeppni. Eyjamenn þurfa aðeins meiri Walter, aðeins minni Smokey.

Sagan skrifuð

Allt er þegar tíunt er. Má segja það? Alls ekki. En allavega, Hörður náði í sitt fyrsta stig í efstu deild í tíunda leik sínum þar. Á laugardaginn gerði Hörður 27-27 jafntefli við Gróttu á Nesinu. Stigin hefðu þó hæglega getað verið tvö því Harðverjar voru tveimur mörkum yfir þegar tæp mínúta var eftir og Þorgeir Bjarki Davíðsson skoraði jöfnunarmark Seltirninga þegar tvær sekúndur voru eftir. En stig er stig og eitthvað fyrir Hörð að byggja á. Þetta var líka aðeins í annað sinn á tímabilinu sem Hörður fær á sig minna en þrjátíu mörk í leik. Allt á uppleið á Ísafirði en enn er langt í land.

Besti ungi leikmaðurinn

Þorsteinn Leó Gunnarsson var í miklum ham þegar Afturelding sigraði Selfoss, 38-31. Skyttan unga skoraði níu mörk úr tólf skotum og Selfyssingar réðu ekkert við hann. Þótt það hafi ekki mikið farið fyrir því hefur Þorsteinn átt glimrandi gott tímabil. Hann er búinn að skora fimmtíu mörk í átta leikjum, eða 6,3 mörk að meðaltali í leik. Aðeins fjórir leikmenn í Olís-deildinni eru með fleiri mörk að meðaltali í leik. Og Aftureldingu gengur líka stórvel. Liðið hefur ekki tapað síðan 22. september og er í 2. sæti deildarinnar. 

Tölfræði sem stakk í augun

Samkvæmt tölfræði HB Statz töpuðu lið Gróttu og Harðar boltanum aðeins átta sinnum samtals í leik liðanna á Seltjarnarnesinu á laugardaginn. Harðverjar töpuðu boltanum bara fimm sinnum en Seltirningar pössuðu enn betur upp á boltann og töpuðu honum einungis þrisvar sinnum í öllum leiknum. Þrátt fyrir það voru aðeins 54 mörk skoruð í leiknum en skotnýting liðanna var ekki sú besta.

Menn leiksins samkvæmt HB Statz

Benedikt Gunnar Óskarsson (Valur) - 10,0

Einar Rafn Eiðsson (KA) - 8,84

Adam Haukur Baumruk (Haukar) - 9,14

Birgir Steinn Jónsson (Grótta) - 7,81

Viktor Sigurðsson (ÍR) - 8,49

Handboltarokk umferðarinnar

Brett Scallions er algjör erkitýpa í handboltarokkinu; gott hár, gott skart og ég-er-kominn-með-þrjá-í-útvíkkun söngstíll. Hann rembist aldrei betur en í „Hemorrhage (In My Hands)“, þekktasta og vinsælasta lagi Fuel sem átti sína dýrðardaga um aldamótin.

Næsta umferð

Svona lítur 13. umferð Olís-deildar karla út.hsí

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×