Skoðun

Ein­greiðsla til ör­yrkja

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar

Í því ástandi sem við höfum búið við undanfarin ár, glímu við covid-19 og nú verðbólgu sem herjar verst á þá sem minnst hafa, er sjálfsagt réttlæti að fötluðu fólki sé bættur skaðinn að því litla leiti sem skattlaus eingreiðsla að upphæð 60.000 kr. getur gert það. Fatlað fólk hefði í raun átt á fá verðbætingu á lífeyri sinn að upphæð nær 120.000 kr. fyrir árið 2022 en það er það högg sem fólk hefur tekið á sig auk þess sem hækkun á örorkulífeyri um að minnsta kosti 10% er nauðsynleg aðgerð til að bilið milli lágmarkslauna og örorkulífeyri gleikki ekki enn frekar.

Oft var þörf en nú er nauðsyn!

Fréttir berast af því að aldrei hafi staða Íslands verið betri en nú. Verkalýðshreyfingin ætlar að sækja launahækkanir í vasa atvinnurekenda sem eiga að sögn forsvarsmanna verkalýðshreyfingarinnar borð fyrir báru, þar sem staða fyrirtækja hefur ekki verið betri síðan 2011.

Staða fatlaðs fólks hefur hinsvegar farið versnandi nánast ár frá ári síðan 2007 og er nú svo komið að heildar mánaðargreiðsla um 40% fatlaðs fólks (öryrkja) er um og undir 300.000 kr. fyrir skatt. Þessi hópur og fleiri til hafa ekkert svigrúm til breytinga á verðlagi og glíma við mikinn lágtekjuvanda. Að lifa af tekjum undir 300 þúsundum er ómögulegt og það vita öll sem einhverja tengingu hafa við veruleika lágtekjuhópa.

Verðbólga ársins 2022 hefur reynst fötluðu fólki afar þungbær, leiga hækkar mánaðarlega sem og matarkarfan. Þetta tvennt, fæði og húsnæði er nauðsynjavara ekki munaður. Örorkulífeyrir hefur ekki hækkað að sama skapi þó þriggja prósentu hækkun hafi komið inn í júní. Það er því afar brýnt að stjórnvöld hækki lífeyri til að bilið á milli lífeyris og lágmarkslauna aukist ekki enn frekar.

Á meðan við bíðum aðgerða sem taka á rót vandans er sjálfsögð og sanngjörn krafa að fatlað fólk fái 60.000 króna skattlausa eingreiðslu nú í desember!

Höfundur er formaður ÖBÍ réttindasamtaka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.