Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍBV 25-27 | ÍBV kom til baka í síðari hálf­leik og vann sætan sigur

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði ÍBV með ellefu mörk
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði ÍBV með ellefu mörk Hulda Margrét

ÍBV vann góðan útisigur á Fram í Olís-deild kvenna í handknattleik í dag en fyrir leik voru liðin jöfn stiga í deildinni. Lokatölur 25-27 en Eyjakonur komu til baka í síðari hálfleik og sigldu sigrinum heim.

Leikurinn var framan af mjög jafn en hart var barist á báðum endum vallarins. Skiptust liðin á að skora en eftir rúman stundarfjórðung var staðan 8-8 en þá gáfu Framkonur í og voru brátt komnar í tveggja marka forystu. Rétt undir lok fyrri hálfleiksins var Fram komið í fjögurra marka forystu en ÍBV náði þó að minnka muninn í þrjú mörk áður en fyrri hálfleikurinn var flautaður af.

Við upphaf síðari hálfleiks mátti sjá litla breytingu frá þeim fyrri en Framkonur voru búnar að koma sér í virkilega góða stöðu. Varð þó munurinn aldrei meiri en fjögur mörk.

Um miðbik síðari hálfleiksins lifnaði ÍBV við og átti þar frábæran 5-1 kafla og voru þar með komnar í eins marks forskot. Þær voru þó ekki hættar þar því þeim tókst að auka muninn í þrjú mörk, sem var Fram um megn. Endaði sigurinn hjá Eyjakonum en lokatölur voru 25-27.

Afhverju vann ÍBV?

Eyjakonur gjörsamlega lifnuðu við í síðari hálfleik. Þegar þær voru komnar á skrið mátti sjá mikla leikgleði í hópnum og sjálfstraustið jókst með því. Þær þéttu vörnina vel í síðari hálfleik sem skilaði þeim einnig góðri markvörslu. Þær fóru að spila á miklum hraða sem skilaði þeim auðveldum hraðaupphlaupsmörkum undir lokin.

Hverjar stóðu upp úr?

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var klárlega maður leiksins í dag en hún skoraði 11 mörk fyrir ÍBV. Birna Berg Haraldsóttir og Sunna Jónsdóttir áttu einnig góðan leik en þær skoruðu sjö og fimm mörk. Marta var með 17 varin skot sem skilar henni 40% markvörslu.

Hjá Fram voru Steinunn Björnsdóttir og Tamara Jovicevic markahæstar með sitthvor sex mörkin. Hafdís Renötudóttir átti flottan leik í marki Fram með 19 varin skot eða 43% markvörslu.

Hvað gekk illa?

Það var í raun ekki mikið sem hægt er að setja út á. Bæði lið spiluðu virkilega góðan handbolta. Í fyrri hálfleik átti ÍBV örlítið erfitt með hraðann í Framliðinu sem varð til þess að Fram náði góðu forskoti. Í síðari hálfleik misstu Fram alla von undir lokinn er ÍBV náði að jafna leikinn. Fram áttu þar með erfiðara með að skora á markið og finna sér færi.

Hvað gerist næst?

Næsta umferð hefst á föstudaginn en þá fær Fram lið Stjörnunar í heimsókn í Úlfarsárdalinn. Á laugardaginn mun ÍBV leggja leið sína norður þar sem þær eiga leik við KA/Þór.

Stefán Arnarsson: Þetta var alveg rosalega jafn leikur

Þjálfari Fram var ekki sáttur.Vísir/Hulda Margrét

„Ég er alveg virkilega svekktur. Við spiluðum 40-45 mínútur mjög vel og svo dettum við aðeins niður og þær komu upp með góð skot, Þær Birna Berg [Haraldsdóttir] og Hrafnhildur Hanna [Þrastardóttir]. Og Sunna [Jónsdóttir] líka, hún var með stöngin inn þarna eitt mjög gott. Og við vorum kannski á alltof litlu tempói í sóknarleiknum okkar og það var held ég engin að taka af skarið hjá okkur eins og var hjá þeim. En við erum nátturlega bara á ákveðnum vegi og upp kemur mótvindur, ákveðin brekka eða snjóflóð. En við vinnum okkur út úr því.“ Sagði Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, að leik loknum en hann var að vonum ekki sáttur með tapið. 

Framarar leiddu stóran part leiksins en það var ekki fyrr en rétt undir lokin sem ÍBV stal forskotinu.

„Við vorum eiginlega aldrei neitt með þetta. Þetta var alveg rosalega jafn leikur, eins og ég sagði líka fyrir leikinn þá er ÍBV alveg mjög gott lið. En mér fannst svona lykilmenn hjá þeim stíga bara upp í seinni hálfleik. En við erum að spila ágætlega, heilt yfir í leiknum en sóknarleikurinn var bara slakur í seinni og það var okkur að falli.“

„Við munum svekkja okkur af þessu og svo förum við bara í næsta leik á mánudaginn.“ Sagði Stefán að lokum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir: Þetta var alltaf að fara að vera stál í stál

„Þetta var hörkuleikur og þær leiddu nú bara mest allan leikinn enda með frábært lið. Þannig við erum bara mjög ánægðar að hafa náð að klára tvö stigin í dag.“ Sagði Hrafnhildur Hanna um sigurinn en hún var markahæsti leikmaður vallarins í dag með ellefu mörk. 

„Við urðum bara aðeins þéttari í vörninni og fengum Mörtu [Wawrzynkowska] með þannig við gerðum þeim mjög erfitt fyrir sóknarlega. Svo sóknarlega sjálfar vorum við bara mjög klókar og náðum að koma boltanum framhjá Hafdísi.“

„Þetta var bara hörkuleikur, við bjuggumst við þeim mjög sterkum sem þær jú voru. Þetta var alltaf að fara að vera stál í stál en ég er mjög ánægð að við höfum náð að klára þetta.“

„Við vorum með frábæra liðsheild. Við stóðum mjög þéttar varnarlega og vorum með góða markvörslu í seinni hálfleik þannig ég held að það hafi klárlega skilað okkur þessum tveimur stigum.“ Sagði hún að lokum. 


Tengdar fréttir

Sigurður Bragason: Þetta var bara svolítil geðveiki

ÍBV vann frábæran sigur á Fram á útivelli fyrr í dag í Olís-deild kvenna í handknattleik en fyrir leikinn voru liðin jöfn í deildinni. Framarar voru einu skrefi á undan bróðurpart leiksins en rétt undir lokinn snéru Eyjakonur blaðinu við og sigldu sigrinum heim. Lokatölur í Framhúsi 25-27. Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, var hæstánægður að leik loknum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.