Handbolti

Danir hirtu efsta sætið af Norðmönnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nora Mörk sækir að vörn Dana í leiknum í kvöld.
Nora Mörk sækir að vörn Dana í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

Danir gerðu sér lítið fyrir og lögðu Noreg að velli í síðasta leik liðanna í milliriðli á Evrópumóti kvenna í handknattleik í kvöld. Danir hirða þar með efsta sæti riðilsins af Norðmönnum og mæta Svartfjallalandi í undanúrslitum. Noregur mætir hins vegar Frakklandi sem valtaði yfir Spán í kvöld.

Fyrir leikinn í kvöld voru bæði Noregur og Danmörk búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum og aðeins spurning um hvort liðið endaði í efsta sæti milliriðilsins.

Danir byrjuðu betur í leiknum og komust í 6-3 en Norðmenn voru þó ekki lengi að svara. Þær jöfnuðu í 7-7 og leiddu með einu marki í leikhléi þar sem staðan var 13-12.

Jafnt var á með liðunum í síðari hálfleik en í stöðunni 24-24 skoruðu Danir þrjú mörk í röð og náðu fjögurra marka forskoti í stöuðunni 29-25. Þá forystu létu þær aldrei af hendi. Noregi tókst mest að minnka muninn í eitt mark en Danir fögnuðu að lokum tveggja marka sigri 31-29 og hirtu þar með efsta sætið í riðlinum.

Í undanúrslitum mætir Danmörk liði Svartfjallalands sem lenti í öðru sæti í hinum milliriðlinum. Þórir Hergeirsson og norska liðið mæta hins vegar gríðarlega sterku liði Frakklands sem vann stórsigur á Spáni í kvöld. Frakkland vann alla sína leiki í milliriðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×