Viðskipti innlent

Tvö hundruð tonna sæeyrna­eldi í Grinda­vík

Bjarki Sigurðsson skrifar
Forsvarsmenn HS Orku og Sæbýlis við undirritunina. Frá vinstri: Arnþór Gústavsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Sæbýli, Ásgeir Guðnason stofnandi og framkvæmdastjóri Sæbýlis, Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku og Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og Auðlindagarðs hjá HS Orku.
Forsvarsmenn HS Orku og Sæbýlis við undirritunina. Frá vinstri: Arnþór Gústavsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Sæbýli, Ásgeir Guðnason stofnandi og framkvæmdastjóri Sæbýlis, Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku og Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar og Auðlindagarðs hjá HS Orku.

HS Orka og Sæbýli undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um sæeyrnaeldi í Auðlindagarði HS Orku. Gert er ráð fyrir byggingu á tvö hundruð tonna eldi sem mögulegt er að fimmfalda á næstu tíu árum. 

Sæbýli hefur síðustu fimmtán ár þróað eigin klakstofn, tækni og framleiðsluaðferð við eldi á sæeyrum á Íslandi. Uppsetning eldisins er einstök á heimsvísu og sú fyrsta sinnar tegundar. Byggir hún á lóðréttu hillukerfi og vatnsendurnýtingu. Sæeyru eru í raun sæsniglar og eru ein verðmætasta eldistegund í heimi. 

„Einstakar náttúruauðlindir á Íslandi með jarðvarma, hreinum borholusjó og grænni raforku gerir Sæbýli í samvinnu við HS Orku mögulegt að þróa umhverfisvænt skelræktarverkefni. Bæði félögin leggja áherslu á umhverfisvænt hringrásarkerfi og erum við því mjög ánægð hjá Sæbýli að ná þessum áfanga í uppbyggingu félagsins,“ er haft eftir Sigurði Péturssyni, stjórnarformanni Sæbýlis í tilkynningu. 

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segist vera afar spenntur fyrir samstarfinu við Sæbýli. Starfsmenn eldisfyrirtækisins búi yfir mikilli þekkingu og reynslu við uppbyggingu á eldisrekstri. 

„Framleiðsla á sæeyrum fellur vel að hugmyndafræði Auðlindagarðsins, nýtir bæði grænt rafmagn og varma við framleiðsluna. En ekki síst lítum við jákvæðum augum á þá möguleika sem sæeyrnaeldið opnar á fyrir möguleg frekari samlegðaráhrif eldisfyrirtækja á svæðinu,“ segir Tómas. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×