Handbolti

Kross 9. umferðar: Adam í paradís og Baumruk hent úr eigin húsi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Petr Baumruk var hent út úr eigin húsi.
Petr Baumruk var hent út úr eigin húsi. stöð 2 sport

Níundu umferð Olís-deildar karla í handbolta lauk í fyrradag. Hverjir áttu góðan dag og hverjir slæman? Hverjir þurfa að hafa áhyggjur og hvað sagði tölfræðin? Vísir fer yfir umferðina á léttum og gagnrýnum nótum.

Ásgeir Örn Hallgrímsson stýrði Haukum í fyrsta sinn þegar þeir töpuðu fyrir meisturum Vals og fóru við það niður í fallsæti, Patrekur Jóhannesson gerði góða ferð á sinn gamla heimavöll þegar Stjarnan rústaði Selfossi, FH varð fyrsta liðið til að vinna í KA-heimilinu í vetur, nýliðar ÍR og Harðar voru grátlega nálægt því að vinna sína leiki og ÍBV komst aftur á sigurbraut eftir tvö töp í röð.

Umfjöllun og viðtöl úr 9. umferð Olís-deildar karla

ÍBV 34-31 Grótta

Hörður 31-32 Fram

KA 27-30 FH

Selfoss 22-35 Stjarnan

ÍR 31-31 Afturelding

Haukar 32-34 Valur

Góð umferð fyrir ...

Arnar Freyr Guðmundsson er í hópi markahæstu leikmanna Olís-deildarinnar.vísir/vilhelm

Arnar Frey Guðmundsson

Eftir fjögur töp í röð, þar af þrjú stór, náði ÍR í jafntefli gegn sjóðheitu liði Aftureldingar í Skógarselinu. Eitt stig var reyndar það minnsta sem ÍR-ingar áttu skilið. Arnar Freyr kom Breiðhyltingum yfir, 31-30, en þeir sofnuðu á verðinum í lokasókn Mosfellinga og Igor Kopyshynskyi jafnaði í 31-31. Arnar Freyr var frábær í leiknum, skaut og skaut og skoraði og skoraði. Alls urðu mörkin tíu og aðeins þrjú af ellefu skotum hans utan af velli geiguðu. Arnar Freyr hefur átt virkilega góða innkomu í lið ÍR í vetur og er markahæsti leikmaður liðsins með 56 mörk. ÍR hefur náð í fimm stig, sem er fimm stigum meira en flestir bjuggust við, og með jafnteflinu í fyrradag komst liðið upp úr fallsæti.

Adam Thorstensen

Markvarsla Stjörnunnar hefur verið döpur í vetur en það var ekkert dapurt við frammistöðu Adams á Selfossi. Hann varði sautján skot, eða tæplega helming þeirra skota sem hann fékk á sig í þrettán marka stórsigri Stjörnumanna, 22-35. Adam hefur allt að bera til að verða einn besti markvörður landsins, nema stöðugleika. En hann er bara tvítugur og góðu leikjunum fjölgar vonandi með tímanum. Eftir erfiðan kafla hefur Stjarnan unnið þrjá leiki í röð og er komin upp í 5. sæti deildarinnar. Aðeins Afturelding hefur fengið á sig færri mörk að meðaltali í vetur en Stjarnan (27,8) þrátt fyrir að aðeins tvö neðstu lið deildarinnar séu með verri hlutfallsmarkvörslu. En með betri markvörslu (segjum yfir þrjátíu prósent að meðaltali í leik) eru Stjörnunni flestir vegir færir.

Rúnar Kárason

Enn og aftur rauk úr byssunni sem hægri höndin á Rúnari er þegar ÍBV lagði Gróttu að velli í Eyjum, 34-31. Rúnar skoraði ellefu mörk úr sextán skotum og var besti maður vallarins. Rúnar hefur verið frábær í vetur og sennilega besti leikmaður deildarinnar. Ekki mæðir jafn mikið á honum í vörninni og á síðasta tímabili og hann getur sett enn meiri kraft í sóknina þar sem fáir standast honum snúning. Rúnar er markahæsti leikmaður deildarinnar með 68 mörk og skotnýting hans er frábær, eða 63,6 prósent. Ef Rúnar hittir á rammann er nánast öruggt að mark bætist við á töfluna. Litlu breytir þótt markverðirnir fari í rétt horn eða standi þar jafnvel; skotin hans eru bara svo föst að það jaðrar við ofbeldi.

Slæm umferð fyrir ...

Eins og nær öll skot ÍR-inga fór þetta hjá Friðrik Hólm Jónssyni framhjá markvörðum Mosfellinga.vísir/vilhelm

Markverði Aftureldingar

Markvarslan hjá Aftureldingu hefur verið talsvert betri á þessu tímabili en því síðasta. En frammistaða markvarða Mosfellinga í Skógarselinu á mánudaginn minnti á gamla og slæma tíma. Þeir Jovan Kukobat og Brynjar Vignir Sigurjónsson vörðu aðeins samtals fimm skot og voru báðir með fjórtán prósent hlutfallsmarkvörslu. Almáttugur. Miðað við það er kannski bara ágætt að Afturelding hafi þó fengið stig gegn ÍR. Fyrir Gunnar Magnússon var frammistaða markvarðanna hans á mánudaginn þó vonandi bara frávik og hún kemst fljótt aftur í samt horf. 

Útispilara Gróttu

Ekkert var undan frammistöðu hornamanna Gróttu í leiknum gegn ÍBV að kvarta. Þeir Þorgeir Bjarki Davíðsson, Jakob Ingi Stefánsson, Andri Þór Helgason og Ágúst Emil Grétarsson skoruðu samtals tuttugu mörk úr aðeins 23 skotum. Það var hins vegar alveg hægt að kvarta yfir frammistöðu útispilara Gróttu í leiknum í Eyjum. Birgir Steinn Jónsson er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla og skarð hans er vandfyllt. En þeir sem eftir eru eiga að geta gert betur. Í leiknum gegn ÍBV skoruðu útispilarar Gróttu samtals tíu mörk úr 25 skotum. Daníel Örn Griffin átti sérstaklega erfitt uppdráttar á sínum gamla heimavelli og klikkaði á sex af átta skotum sínum og Akimasa Abe var með eitt mark en tapaði boltanum fjórum sinnum.

KA

KA hafði ekki tapað fyrir FH í KA-heimilinu síðan liðið kom aftur upp í efstu 2018. En snemma í viðureign liðanna á sunnudaginn stefndi í að það myndi breytast. FH-ingar voru mun sterkari aðilinn, skoruðu að vild og fóru með sjö marka forskot til búningsherbergja. KA-menn lentu mest átta mörkum undir en loks þegar þeir lentu með smettið í stéttinni risu þeir upp og gerðu leikinn spennandi. KA minnkaði muninn í eitt mark, 26-27, en FH skoraði þrjú af síðustu fjórum leiksins og tryggði sér sigurinn. Þetta var fyrsta tap KA-manna á heimavelli en það fimmta í heildina. KA er í 8. sætinu með sex stig sem er alltílæ ekki gott en liðið hefur bara unnið nýliðana hingað til.

Fokk, við þurfum að hafa áhyggjur

Eftir gott gengi hefur Selfoss tapað tveimur leikjum í röð. Það kom engum í opna skjöldu að Selfyssingar skildu tapa á heimavelli meistara Valsmanna en tapið fyrir Stjörnumönnum á sunnudaginn skilur eflaust eftir sig beiskt bragð í munni Sunnlendinga. Það er ekkert skrítið að tapa fyrir sterku liði Stjörnunni en það er ljótt að tapa með þrettán mörkum fyrir því og það á heimavelli. Selfyssingar byrjuðu leikinn ágætlega en urðu verri eftir því sem á hann leið og úrslitin voru ráðin snemma í seinni hálfleik. Þórir Ólafsson og aðstoðarmenn hans þurfa kannski að byrja að bryðja kvíðalyf en Selfyssingar þurfa að vera fljótir að snúa genginu við og verða eiginlega að fá jákvæða niðurstöðu út úr leiknum á Varmá á mánudaginn.

Hent út úr eigin húsi

Eins og allir á Ásvöllum, nema dómararnir, sá gamla Haukahetjan Petr Baumruk að boltinn fór af Stiven Tobar Valencia og út af áður en hann kom Val 22-23 yfir gegn Haukum. Baumruk lét í sér heyra, full mikið að mati Ramunas Mikalonis sem lét vísa honum í burtu. Það endaði með því að Baumruk fór út úr íþróttasalnum. Baumruk er húsvörður á Ásvöllum og var því vísað út úr eigin húsi. Það þurfti kjark til þess enda á Baumruk Ásvelli en það hefði ekki þurft að koma til þess ef dómararnir hefðu bara fylgst betur með.

Besti ungi leikmaðurinn

Ein stærsta ástæða þess að FH hefur unnið sex leiki í röð í deild og bikar er frammistaða Einars Braga Aðalsteinssonar, eins af Stubbunum í liði Fimleikafélagsins. Einar Bragi átti afbragðs leik þegar FH vann langþráðan sigur í KA-heimilinu um helgina. Hann skoraði sjö mörk, gaf tvær stoðsendingar, eina vítasendingu og fiskaði tvö víti. Þá stóð hann vaktina vel í vörninni að vanda. Eftir að Egill Magnússon hrökk úr skaftinu hefur Einar Bragi fengið stærra hlutverk og meiri ábyrgð í FH-sókninni og tekið því fagnandi. Í síðustu fimm deildarleikjum FH sem allir hafa unnist hefur Einar Bragi skorað samtals 28 mörk, eða 5,6 mörk að meðaltali í leik.

Tölfræði sem stakk í augun

Meira og minna öll skot fyrir utan í leik ÍR og Aftureldingar fóru í netið.vísir/vilhelm

Útispilararnir í leik ÍR og Aftureldingar voru í miklum ham í leik liðanna í Skógarselinu. Alls voru 35 af 62 mörkum í leiknum skoruð með skotum fyrir utan. ÍR-ingar skoruðu tuttugu mörk í þrjátíu skotum fyrir utan og Mosfellingar fimmtán mörk í 25 skotum. Það gerir 64 prósent nýtingu sem er stórgott en sýnir líka hversu döpur markvarslan í leiknum var.

Menn leiksins samkvæmt HB Statz

Rúnar Kárason (ÍBV) - 8,59

Stefán Darri Þórsson (Fram) - 8,07

Einar Rafn Eiðsson (KA) - 8,62

Adam Thorstensen (Stjarnan) - 8,91

Arnar Freyr Guðmundsson (ÍR) - 7,68

Andri Már Rúnarsson (Haukar) - 7,81

Handboltarokk umferðarinnar

Kansas-sveitin Puddle of Mudd er ein af höfuðsveitum handboltarokksins. Þeirra þekktasta lag, „Blurry“, er kraftballaða úr efstu hillu, glæsileg blanda af tilgerð og rembingssöng. Og þetta fór svona líka vel ofan í Kanann enda var „Blurry“ vinsælasta rokklag ársins 2002 í Bandaríkjunum.

Næsta umferð

Svona lítur 10. umferð Olís-deildar karla út.hsí

Tengdar fréttir

„Einn mesti stormur í vatnsglasi sem ég hef upplifað“

Hrannari Guðmundssyni, þjálfara kvennaliðs Stjörnunnar, finnst Valsmenn vera full viðkvæmir þessa dagana og bendir á viðbrögð þeirra við umræðunni um Tryggva Garðar Jónsson og styrk Ferencváros sem Valur sigraði í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×