Viðskipti innlent

Skortur á erlendu vinnuafli á Íslandi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Samkvæmt greiningu Bergþóru Baldursdóttur er skortur á erlendu vinnuafli á Íslandi.
Samkvæmt greiningu Bergþóru Baldursdóttur er skortur á erlendu vinnuafli á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Ljóst er að þörf er á erlendu starfsfólki til landsins að mati hagfræðings hjá Íslandsbanka. Atvinnuleysi er nú komið á sömu slóðir og fyrir faraldurinn.

Skráð atvinnuleysi er sem stendur í 2,8 prósentum og hefur ekki verið jafn lágt síðan í lok árs 2018. Rímar það við niðurstöður vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands þar sem atvinnuleysi mælist 3,4 prósent. 

Að mati Bergþóru Baldursdóttur, hagfræðingi hjá greiningardeild Íslandsbanka, er útlit fyrir talsverðan vöxt í greinum á borð við ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Þar er hins vegar skortur á starfsfólki sem mestur. 

„Þessi lausu störf virðast í auknum mæli vera mönnuð af erlendu starfsfólki. Á þriðja ársfjórðungi voru tæplega 46 þúsund innflytjendur á vinnumarkaði sem gerir um 21% af öllu vinnuafli hérlendis og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra,“ segir í greiningu Bergþóru á vef Íslandsbanka. 

Hún telur að miðað við þörfina fyrir starfsfólki í þessum atvinnugreinum megi ætla að hlutfallið muni halda áfram að aukast á næstu misserum. 

„Ljóst er að þörf er á erlendu starfsfólki hingað til lands til að leysa störf í okkar helstu atvinnugreinum. Í mikilli verðbólgu og með talsverða spennu á vinnumarkaði er ljóst að kjaraviðræður komandi vikna og mánaða verða veruleg áskorun,“ segir í greiningunni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×