Körfubolti

LeBron tapaði fyrir gamla liðinu sínu og Lakers áfram í skítamálum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allt er í steik hjá LeBron James og félögum hans í Los Angeles Lakers á meðan gamla liðinu hans, Cleveland Cavaliers, gengur allt í haginn.
Allt er í steik hjá LeBron James og félögum hans í Los Angeles Lakers á meðan gamla liðinu hans, Cleveland Cavaliers, gengur allt í haginn. getty/Ronald Martinez

LeBron James sótt ekki gull í greipar síns gamla liðs og vandræði Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta aukast enn.

Lakers tapaði fyrir Cleveland Cavaliers, 100-104, í gær. Cleveland tapaði sínum fyrsta leik á tímabilinu en hefur síðan unnið átta í röð og er í 2. sæti Austurdeildarinnar.

Öllu verr gengur hjá Lakers. Liðið hefur tapað sjö af fyrstu níu leikjum sínum og er í fjórtánda og næstneðsta sæti Vesturdeildarinnar. Aðeins Houston Rockets hefur unnið færri leiki en Lakers í vetur, eða bara einn.

LeBron var stigahæstur hjá Lakers gegn gamla liðinu sínu með 27 stig. Anthony Davis skoraði nítján stig og tók tólf fráköst en tók bara tvö skot í seinni hálfleik.

Donovan Mitchell heldur áfram að spila vel fyrir Cleveland og skilaði 33 stigum. Darius Garland var með 24 stig.

Utah Jazz heldur áfram að koma á óvart og vann Los Angeles Clippers í nótt, 102-110. Utah er í 2. sæti Vesturdeildarinnar með átta sigra og þrjú töp. Enginn átti von á því enda skipti Utah nánast öllum sínum bestu mönnum í burtu til að auka líkurnar á að liðið gæti fengið fyrsta valrétt í nýliðavali næsta árs og valið þar franska ungstirnið Victor Wembanyama.

Jordan Clarkson skoraði 23 stig fyrir Utah og Collin Sexton 22. Paul George skoraði 34 stig fyrir Clippers sem er í 8. sæti Vesturdeildarinnar.

Úrslitin í nótt

  • LA Lakers 100-114 Cleveland
  • LA Clippers 102-110 Utah
  • Toronto 113-104 Chicago
  • Memphis 103-97 Washington
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×