Heimamenn frá Benidorm reyndu hvað þeir gátu til að stjórna hraðanum í leiknum gegn leifturhröðu Valsliðinu. Það gekk ágætlega hjá heimamönnum lengst af og lítið var skorað í fyrri hálfleik.
Eftir 24 mínútna leik var allt í járnum. Staðan var 11-11 og heimamenn stilltu upp í sókn. Með góðri árás náðu þeir að opna hornið fyrir Juan Perez sem fékk galopið færi gegn landsliðsmarkverði Íslands.
Björgvin varði hins vegar virkilega vel frá Perez, en boltinn virtist þó ætla að skoppa yfir marklínuna. Hinn margreyndi markvörður hélt þó ekki og fleygði sér eins og köttur á eftir boltanum og náði að moka honum af marklínunni áður en hann fór inn.
Þessa mögnuðu vörslu Björgvins má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Eins og áður sagði höfðu Valsmenn að lokum betur í gær, 29-32, og liðið er nú með fullt hús stiga eftir tvær umferðir í riðlakeppninni, líkt og Íslendingalið Flensburg.