Umfjöllun: Benidorm - Valur 29-32 | Valur með fullt hús

Andri Már Eggertsson skrifar
valur hluda marg
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Valur vann ótrúlegan sigur á Benidorm á Spáni 29-32. Valur var leiðandi allan leikinn og lenti aldrei undir. Staðan var jöfn í hálfleik 12-12. Valur komst mest fjórum mörkum yfir í seinni hálfleik en heimamenn komu til baka og voru lokamínúturnar afar spennandi.

Arnór Snær Óskarsson gerði útslagið í brakinu þar sem hann gerði síðustu tvö mörk leiksins og Valur vann þriggja marka sigur 29-32. 

Með þessum sigri skrifaði Valur sig í sögubækurnar. Valur er fyrsta íslenska liðið til að vinna tvo leiki í röð í riðli í Evrópukeppni. Þetta var í annað skiptið sem íslenskt lið vinnur útisigur í riðli í  Evrópukeppni en sigur Hauka á Vardar árið 2003 var sá fyrsti. 

 

Snorri Steinn Guðjónsson tók ansi djarfa ákvörðun þegar hann byrjaði með Stiven Tobar Valencia og Finn Inga Stefánsson á bekknum. Í þeirra stað voru Vignir Stefánsson og Bergur Elí Rúnarsson í hornunum. Þessi ákvörðun var ekki að skila sér í leiknum þar sem Vignir skoraði eitt mark úr fimm skotum og Bergur Elí Rúnarsson tók tvö skot og klikkaði úr báðum.

Stiven og Finnur komu inn á í hálfleik og spiluðu allan seinni hálfleikinn. Finnur Ingi hafði verið að glíma við veikindi í undirbúningnum fyrir leik sem litaði spilamennsku hans.

Benidorm spilaði nánast allan fyrri hálfleik einum fleiri. Til að byrja með gerði Valur vel í að refsa heimamönnum með því að fiska boltann og skora í autt markið. Valur skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik í autt markið.

Benidorm spilaði afar langar og hægar sóknir en Valur gerði vel í að halda þolinmæði og leysti vel úr því. Heimamenn tóku sitt fyrsta leikhlé þremur mörkum undir þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Björgvin Páll Gústavsson, markmaður Vals, fór á kostum og varði sex skot á fyrstu fimmtán mínútunum og var með 55 prósent markvörslu. Björgvin varði mikið af dauðafærum þar sem heimamenn spiluðu mikið einum fleiri.

 

Danskir dómarar leiksins tóku afar stóra ákvörðun þegar tæplega tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Alexander Júlíusson fékk beint rautt spjald þegar Iván Rodríguez fór í árás milli hans og Aron Dags. Iván Rodríguez gerði afar mikið úr þessu atviki sem varð til þess að Alexander Júlíusson kom ekki meira við sögu. Aron Dagur Pálsson tók við keflinu og leysti það hlutverk afar vel það sem eftir var leiks.

Það var allt jafnt í hálfleik 12-12.

Valur náði að keyra upp hraðann meira í upphafi seinni hálfleiks og fundu sinn gír þar sem þeir refsuðu eftir hvert skot heimamanna hvort sem þeir skoruðu eða ekki. Valur var þremur mörkum yfir þega sjö mínútur voru liðnar af seinni hálfleik 15-18.

Heimamenn gerðu vel í að missa ekki hraða Valsmenn langt frá sér og minnkuðu forskot Vals niður í eitt mark þegar tólf mínútur voru eftir. Þegar átta mínútur voru eftir var Valur fjórum mörkum yfir og heimamenn tóku sitt síðasta leikhlé. Benidorm náði að minnka forskot Vals niður í eitt mark sem gerði endasprettinn æsispennandi. 

Þorgils Jón Svölu Baldursson fékk beint rautt spjald þegar fjórar mínútur voru eftir. Þorgils braut á Iván Rodríguez og var þetta skólabókardæmi um brot sem hefði átt að verðskulda tveggja mínútna brottvísun.

Snorri Steinn Guðjónsson sýndi snilli sýna sem þjálfari þegar hann tók leikhlé og teiknaði upp í kerfi einu marki yfir þegar mínúta var eftir. Aron Dagur leysti inn úr hægri skyttu og í sömu andrá kom Arnór Snær Óskarsson inn á sem aukamaður á fleygiferð og skoraði. 

Björgvin Páll Gústavsson fylgdi marki Arnórs eftir með að verja sitt sextánda skot og Arnór Snær gerði síðan síðasta mark leiksins og Valur vann þriggja marka sigur 29-32.

Eftir tvo leiki eru Valur og Flensburg einu liðin með fullt hús í riðlinum en þau mætast í næstu umferð þann 22. nóvember klukkan 19:45 í Origo-höllinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira