Handbolti

Viktor varði vel í stórsigri gegn Kiel

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina vel í marki Nantes í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson stóð vaktina vel í marki Nantes í kvöld. Getty/Nikola Krstic

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson átti flottan leik fyrir franska félagið Nantes er liðið vann öruggan átta marka sigur gegn þýska stórliðinu Kiel í Meistaradeild Evrópu í kvöld, 38-30.

Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum leiksins og staðan var enn jöfn,10-10, þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður. Þá tóku heimamenn í Nantes hins vegar völdin á vellinum og náðu fimm marka forskoti áður en flautað var til hálfleiks, en staðan var 20-15 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Heimamenn juku forskot sitt hratt í síðari hálfleik og náðu mest 13 marka forystu í stöðunni 35-22. Gestirnir í Kiel voru aldrei nálægt því að brúa það bil og niðurstaðan varð átta marka sigur Nantes, 38-30.

Viktor Gísli átti sem áður segir flottan leik í marki Nantes í kvöld og varði 15 af þeim 43 skotum sem hann fékk á sig, en það gerir rétt tæplega 35 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Nantes situr nú í 2.-3. sæti B-riðils með átta stig eftir fimm leiki, líkt og Lomza Kielce, lið Hauks Þrastarsonar sem vann góðan sigur gegn Celje Lasko fyrr í kvöld. Kiel situr hins vegar í fimmta sæti riðilsins með fjögur stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.