Skoðun

Enda­stopp Strætó

Agnar Freyr Stefánsson skrifar

Næsta stopp er; NÆTURSTRÆTÓ

Ég stend í Hafnarfirði og bíð eftir Ásnum. Síðan ég flutti heim frá Hollandi hef ég notað strætó daglega. Það varð ósjálfrátt vani að nota almenningssamgöngur í Hollandi því það var ódýrt, hagstætt og áreiðanlegt. Á þeim stuttu 3 mánuðum sem ég hef verið á Íslandi hefur Strætó hækkað í verði, hætt ferðum fyrr, skert þjónustu og verst af öllu - hætt með næturstrætó.

Ásinn kemur loksins og ég stekk í hann og nota Klapp kortið mitt til að borga, ég hafði nýlega festi kaupum á árskorti þar sem verðið var að fara hækka (aftur) ég legg kortið á skannann og upp kemur gulur kall “Villa kom upp í kerfi talið við bílstjórna” ég lít á hann og bílstjórinn hleypir mér inn.

Ég sest í gluggasæti og set heyrnartól í eyrum og hlusta á útvarpið, þar er Sindri Freyr Ásgeirsson að tala um skerðingu næturstrætó. “...við myndum aldrei loka Miklubrautinni á nóttunni því hún er svo lítið notuð”. Það er svona hugsunarháttur sem ég vildi að væri ríkjandi á Íslandi þegar talað væri um almenningssamgöngur. Því mér finnst ekkert sjálfsagðara en að hafa strætó gangandi á nóttunni fyrir fólk sem er að vinna frameftir eða er að njóta lífsins og vill koma sér ódýrt og öruggt heim. Í stað þess að greiða 15.000kr fyrir leigubíl eða brjóta lög og jafnvel andlitið á Hoppi.

Í frétt Stundarinnar var haft eftir framkvæmdastjóri Strætó að þau miðuðu við 50 manns í hverjum næturstrætó. Ég tel sætin sem eru fyrir framan og aftan mig og tel 43 sæti. Svo Strætó var að búast við í hið minnsta 42 stútfullum strætisvögnum hverja helgi í 14 vikur, samhliða því að innleiða nýtt miðakerfi sem var gallað og ónothæft. Þessar tölur eru svo óraunhæfar að mætti halda að Strætó hannaði kerfið svo það falli en geta samt sagt að þau ‘reyndu’. Ég lít í símann og fer á Twitter þar sem fólk segist ekki hafa nýtt sér næturstrætó því appið og posinn virkuðu ekki, óljóst hvar strætó stoppaði og að seinasti næturstrætóinn fór klukkutíma áður en bærinn lokaði. Ekkert sem Strætó ákvað að lagfæra áður en það felldi niður næturstrætóinn alfarið.

Næsta stopp er; VERÐHÆKKUN

Það fer ekki framhjá neinum að Strætó er búin að skerða þjónustu sína jafnt of þétt í áratugi því öll þau fríðindi sem þau bjóða upp á samsvara ekki kostnaði. Ég hugsa oft þegar ég lít út um gluggann á umferðina hvort skerðing Strætó skili í raun árangri, eða hvort þau missi bara fleiri farþega jafnvel tilvonandi farþega.

Þegar ég lít yfir strætóinn sé ég krakka, unglinga, innflytjendur, fólk sem á ekki efni á að reka bíl og fólk sem trúir á almenningssamgöngur og bíllausan lífsstíl, hvar eru túristarnir? Jú í FlyBus rútunni við hliðin á Strætónum. Burt sé frá því þá er þetta fólkið sem notar strætó, sem þarf strætó og sem vill strætó. Sjaldan sér maður þingmenn, borgar- og bæjarstjórnendur, jafnvel ráðherra nota strætó fólkið sem stjórnar strætó. Það er blint á þessa mikilvægu þjónustu, horfa niður til hennar og forðast hana eins og heitan eldinn. Ef þú notar ekki þjónustuna sem þú stjórnar þá veistu ekki hvað þarf í raun að gera. Hvað geta þingmenn og borgarstjórnendur gert fyrir Strætó svo þau mundu vilji nota Strætó?

Næsta stopp er; EINKAVÆÐING

Að færa rekstur akstursleiða Strætó til einkaaðila væri eins og að leigja herbergi spítalans til einkaaðila því rekstur þess samsvarar ekki kostnaði eða leigja út götur til einkaaðila því vegagerðin nær ekki að viðhalda götunum því þær samsvara ekki kostnaði. Þegar rekið er almenningsþjónustu á hún að vera rekin af ríki, borg og bæum. Einkavæðing á hvaða mælikvarða sem er getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar sem strætófarþegar sitja uppi með. Fólkið sem á hvað minnst milli handanna.

Stjórnendur Strætó vilja leggja út leiðir til einkaaðila svo fólk eins og Hópbílar og Kynnisferðir sjái um aksturinn og þá fá Strætó “hagstætt verð”. Heldur Strætó virkilega að Hópferðir og Kynnisferðir bjóði upp á hagstætt verð? Samkeppnisaðilarnir, einkarekin fyrirtæki knúin áfram með gróða í hug. Hvað með Reykjavík - Keflavíkur leiðina? Kynnisferðir (e. FlyBus) eru nú þegar með þá leið og rukkar 3.499 kr fyrir sætið, ég efast að þau myndu bjóða “hagstætt verð” fyrir strætó til að leggja við völlinn til að sækja túristana fyrir 550 kr. Hvað myndi taka Hópbíla og Kynnisferðir langan tíma til að rafvæða flotann sinn ef einhvern tímann? Myndi það ekki enda að ríkið “styrki” þau fyrirtæki til að rafvæða flotann? Einkavæðing er bara skammtíma lausn á vandamál sem þarf langtímalausn.

Næsta stopp er; PENINGAR

Frægt er orðið að ríkið dældi 9 milljörðum í að niðurgreiða Teslur fyrir þau sem ætluðu hvort sem er að kaupa sér Teslur, en aðeins 1 milljarð í Strætó, kerfi sem er að blæða út og er byrjað að leita hjálpar til einkavæðingar og kapítalisma til að mögulega lifa af. Ég í raun get ekki kennt Strætó um, það er jafn mikið fórnarlamb og farþegarnir. Allar kröfur Strætó falla í grýttan jarðveg og hefur borgin og bæirnir í kring látið með Strætó eins og heita kartöflu sem enginn vill taka ábyrgð á. Það er lítill vilji til að efla þjónustuna þegar stjórnin keyrir til og frá stjórnarfundum en eina samkomulagið virðist vera að hækka verð og skerða þjónustu. Ríkið hefur lítið tjáð sig um vandamál Strætó og er þögul eins og gröfin en fram kemur í ársskýrslu Strætó frá 2021 að framlag Ríkisins hafi verið “…774 m.kr undir áætlun…” á sama tíma og rekstrarniðurstaða Strætó árið 2021 “...var neikvæð um 439 m.kr…” - hreint aðgerðarleysi.

Endastopp; STRÆTÓ

Það er að koma að enda stoppinu, Strætó eins og við þekkjum það er að blæða út og er Ríkið, Borgin og Bæirnir allir að leyfa því að gerast. Það sem kemur í staðinn veit enginn. Ég hef rætt við marga í kringum mig um strætó, næturstrætó, klappið og reksturinn. Margir telja þetta tapað dæmi og ætti orka mín að fara eitthvert annað. Þetta er mitt seinasta kall á hjálp en ég vona að úr öskum Strætó rísi frábær Borgarlína en með þessu áframhaldi og viðhorfi til almenningssamganga mun Borgarlínan lenda í sama farvegi og eflaust verða aðeins útópísk goðsögn á meðan við sitjum föst í morgunumferðinni á leiðinni í vinnuna.

Einn daginn vona ég að hugsunarháttur fólks breytist úr ‘að þurfa nota strætó’ í ‘að vilja nota strætó’.

Höfundur vill nota strætó.


Heimildir

https://stundin.is/grein/16012/

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/samgongur-og-rettlat-umskipti-gjaldskrarhaekkanir-hja-straeto-en-27-milljardar-i-rafbila/

https://www.ruv.is/utvarp/spila/morgunutvarpid/23822/7grrh4/naeturstraeto

https://straeto.is/media/2022/03/straetobs_arsreikningur_31122021_undirritad.pdfAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.