Körfubolti

„Það er erfitt að vera ekki með mann eins og Pavel í liðinu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij náðu vel saman á tíma sínum saman hjá Val og áður KR.
Kristófer Acox og Pavel Ermolinskij náðu vel saman á tíma sínum saman hjá Val og áður KR. Vísir/Bára

Kristófer Acox segir það hafa verið mikið áfall fyrir hinn almenna Valsara þegar Pavel Ermolinskij tilkynnti það að skórnir væru farnir á hilluna í sumar. Hann segir að leikmaðurinn hafi skilið eftir sig stórt skarð, en nú sé komið að því að reyna að vinna titla án hans sér við hlið.

„Bara ekki neitt,“ sagði Kristófer og hló, aðspurður að því hversu stórt skarð Pavel hafi skilið eftir sig hjá Val

. „Nei auðvitað alveg bara risastórt og maður finnur alveg fyrir því. Hann er nú kannski ekki maðurinn sem er mættur að drilla með þér í júní, júlí eða ágúst, en hann fer bara sínar eigin leiðir og mætir síðan alltaf einhvernveginn í toppformi.“

„Maður finnur fyrir því bara í klefanum og auðvitað á vellinum og það er erfitt að vera ekki með mann eins og Pavel í liðinu. Ég hef fengið að vera með honum núna í nokkur ár að spila, bæði í KR og svo núna aftur í Val, og hann hefur verið partur af öllum þeim titlum sem ég hef unnið.“

„Reyndi eins og ég gat að fá hann til að vera allavega eitt ár í viðbót“

Kristófer segir að þrátt fyrir það að hann og Pavel séu ekki endilega svipaðar týpur hafi þeir félagar alltaf náð vel saman og að hann hafi reynt eins og hann gat til að fá félaga sinn til að halda áfram.

„Ég og hann eigum þetta fallega, skrýtna samband. Við erum kannski ekki svipaðar týpur, en við náum alltaf vel saman og mér leið alltaf vel í kringum hann og að fá að vera með honum á vellinum. Það var auðvitað mjög leiðinlegt þegar hann tilkynnti það í Skessuhorninu að hann væri hættur, en ég var svo sem í miklu sambandi við hann í sumar þannig ég vissi þetta alveg. En ég reyndi eins og ég gat að fá hann til að vera allavega eitt ár í viðbót.“

„Hann fékk þarna mjög slæm meiðsli í seinasta leiknum á móti Tindastól í vor og við héldum kannski að hnéð á honum væri bara búið. Við vorum í myndatöku með bikarnum eftir leik og hnéð á honum var tvöfalt, en stríðsmaðurinn sem hann er þá var hann ekkert að kippa sér upp við það.“

„Auðvitað er leiðinlegt að missa hann. En ég og allir aðrir óskum honum bara alls hins besta í því sem hann tekur fyrir sér í lífinu, en hann er að sjálfsögðu alltaf velkominn til okkar á Hlíðarenda.“

Klippa: Kristófer Acox um Pavel Ermolinskij

Vonast til að vinna fleiri titla þó Pavel sé hættur

Kristófer á enn eftir að upplifa það að vinna titil hér á landi án þess að hafa Pavel með sér í liði og segir að nú sé kominn tími til að prófa það án Pavels.

„Við þurfum bara að prófa það að fá að vinna án hans. En vonandi verður hann að einhverju leyti í kringum liðið. Þó hann sé ekki alltaf á æfingum eða inni í klefa þá veit ég að við getum alltaf leitað til hans og hann mun hjálpa okkur á öðrum stöðum.“

Þá segir Kristófer að þó að Pavel hafi átt nokkuð auðvelt með að slíta sig frá körfuboltavellinum sé hann tíður gestur á Hlíðarenda.

„Hann er duglegur að mæta, ekki hjá okkur heldur er hann duglegur að mæta bara hjá handboltanum og fótboltanum. Og hann var náttúrulega rosalega mikið uppi í húsi og hann sendi mér skilaboð í sumar þar sem hann sagðist vera farinn í handboltann og bað mig um að vera ekki að heilsa sér á göngunum,“ sagði Kristófer léttur.

„Hann er voða mikið í kringum flest lið á Hlíðarenda og það eru allir sem elska hann þarna og dýrka. Það var bara mikið shock fyrir Valsara almennt að hann hafi tilkynnt að hann ætlaði ekki að vera með. En hann er auðvitað eitthvað úti í húsi og úti í Fjósi. Hann er stemningsmaður og lætur alveg sjá sig,“ sagði Kristófer að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×